Mánudagur, 22 júlí 2019
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

800 þúsund svipta sig lífi árlega

NOTATARGET

9.september 2018. Fjöldi þeirra sem fremja sjálfsmorð á hverju ári er álíka og íbúafjöldi borga á borð við Stokkhólm, Marseille eða Amsterdam eða 800 þúsund manns. Var þetta næstalgengasta dauðaorsök ungs fólks á aldrinum 15-29 í heiminum árið 2016.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Geðheilsuráð Kanada hafa í sameiningu gefið út vegvísi (toolkit) þar sem tekin eru saman ráð til að hindra sjálfsmorð í tilefni af Alþjóðlegum degi sjálfvígsforvarna 10.september.

Fólk sviptir sig lífi í öllum ríkjum og heimshlutum, jafnt auðugir sem fátækir. Hins vegar er tíðni sjálfsvíga mest í lág- og meðaltekjuríkjum, en þar voru fjórir-fimmtu hluta sjálfsmorða árið 2016.

Á Norðurlöndum var sjálfsvígstíðnin svipuð í ríkjunum fimm, eða á bilinu 12-14 á hverja 100 þúsund íbúa.

Á Íslandi er ástæða til að hafa áhyggjur af því að 9% ungmenna hafa reynt að fyrirfara sér samkvæmt nýrri skýrslu um sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir ungs fólks á Íslandi. Niðurstöður skýrslunnar sýna að sjálfsskaði stúlkna hefur aukist frá árinu 2000 og sjálfsvígshugsanir sömuleiðis. Fjöldi ungmenna sem segjast hafa gert tilraun til sjálfsvígs hefur lítið breyst frá árinu 2000 en þó má sjá aukingu meðal stúlkna á síðustu árum.

Árið 2017  voru 500-600 sjálfsmorð í Noregi en í 60% tilfella var um fólk undir fimmtugu að ræða. 4-6 þúsund reyna að svipta sig lífi árlega og er stærstur hluti konur. Fleiri falla fyrir eigin hendi í Noregi en í slysum.

Fjöldi þeirra sem fremja sjálfsmorð er álíka í Danmörku en fleiri gera tilraun til þess eða 12-13 þúsund. Ein könnun bendir til að 5-10% landsmanna hafi haft sjálfsmorðsþanka síðustu 14 daga.

1,129 Svíar frömdu sjálfsmorð 2016 og var það algengasta dauðaorsök fólks á aldrinum 15-20 og eru tveir þriðju karlmenn.

Í ríkum löndum er áberandi fylgni á milli sjálfsvíga og geðheilsu, oft og tíðum þunglyndi og misnotkun áfengis, en margir fremja sjálfsmorð vegna erfiðleika í hita augnabliksins.

Í nýja vegvísi WHO eru teknar saman nokkrar aðferðir til að koma í veg fyrir þessa vá, þar á meðal útskýringar á algengustu sjálfsmorðsaðferðum og hvernig hægt er að hindra aðgang þeirra sem eru í áhættuhóp að því sem þeir geta notað til að skaða sig. Einnig eru tillögur um að minnka áfengis og fíkniefnamisnotkun og skilvirkar aðgerðir heilbrigðisþjónustu og eftirfylgni fyrir þá sem lifað hafa af sjálfsmorðstilraunir. Í skjalinu eru minnt á að auk heilbrigðisþjónustu þurfa margir hlutir samfélagsins að leggjast á árarnar allt frá menntastofnunum til fjölmiðla.

Mynd: World Bank/Dominic Chavez

 

Dagur hafsins 8.júní