Miðvikudagur, 24 júlí 2019
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Guterres: „Loftslagsbreytingar ógna tilveru okkar".

 Guterres climate

11.september 2018. António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segist munu beita Sameinuðu þjóðunum í því skyni að „láta leiðtoga okkar hlusta” og ráðast gegn loftslagsbreytingum sem hann segir „ógna tilveru okkar, áður en það er um seinan.

 „Ef við sjáum ekki að okkur fyrir 2020, er hætta á að það verði um seinan og loftslagbreytingar verði óafturkræfar með hrikalegum afleiðingum fyrir fólk og náttúruna sem við lifum á,” sagði aðalframkvæmdastjórinn í þýðingarmikilli ræðu um loftslagsmál í New York í gær. 

„Við höfum orðið vitna að því að hitamet hafa verið slegin um allan heim,“ sagði Guterres og benti á að þetta ár yrði líklega fjórða heitasta ár sögunar og að síðustu tvo áratugi hefðu 18 ár verið á meðal hinna heitustu frá því mælingar hófust um 1850.

„Öfgakenndar hitabylgjur, skógareldar, hvassviðri og flóð skilja eftir sig slóða dauða og eyðileggingar. Ísinn á norðurskautinu hverfur hraðar en talið var mögulegt. Á þessu ári hefur íshellan norður af Grænlandi byrjað að sundrast. Þessi hlýnun á Norðurslóðum hefur áhrif á veðurmynstur um allt norðurhvel jarðar.“

Guterres hvatti þjóðarleiðtoga í heiminum til að koma til leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna að ári með ákveðnar tillögur að vopni til þess að þær megi samþykkja á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 2020. „Vísindamenn hafa varað okkur við í marga áratugi. Aftur og aftur. Allt of margir leiðtogar hafa skellt skolleyrum við viðvörunum þeirra. Allt of fáir hafa gripið til þeirra aðgerða sem vísindaleg þekking krefst. Jafnvel eftir Parísar-samkomulagið skortir forystu og metnað til að gera það sem nauðsyn krefur. Við sjáum árangurinn.”

Aðalframkvæmdastjórinn hvatti borgaralegt samfélag og sérstaklega ungt fólkt til að fylkja liði að baki loftslagsaðgerðum.

Hann sagði að það væru mikilvæg efnahagsleg rök fyrir því loftslagsaðgerðum, ekki síst vegna þess að „við stöndum frammi fyrir miklu efnahagslegu tapi af völdum loftslagsbreytinga.“

„Undanfarna áratugi hefur öfga-veðurfar og heilbrigðisvá af völdum bruna jarðfefnaeldsneytis kostað hagkerfi Bandaríkjanna að minnsta kosti 240 milljarða dala á ári.“

Þessi fjárhæð mun hækka um 50% á næsta áratug, að sögn Guterres.

Á hinn bóginn nefndi hann einnig margar lofsverðar loftslagsaðgerðir jafnt ríkisstjórna sem fyrirtækja, þar á meðal margar í Evrópu.


• Þriðjungur orku í Evrópu 2030 verður sóttur til vinds og sólar fyrir 2030.

• Svíþjóð ætlar sér að ná þessum markmiðum ESB um endurnýjanlega orku 12 árum fyrr.

• Olíusjóður Norðmanna (1 trilljón dala – stærsti slíkur sjóður í heimi) hefur hætt fjárfestingum í kolaiðnaði og hætt við fjárfestingar í pappírsfyrirtækjum sem stofna skógum í hættu.

• Skotland hefur tekið í notkun fyrsta fljótandi vindmyllubúið.

• Allianz, eitt stærsta tryggingafyrirtæki heims, mun hætta að tryggja orkuver sem nota kol.

• Og á síðasta ári fjárfesti Kína 126 milljarða dala í endurnýjanlegri orku, sem er 30% aukning frá fyrra ári.

Í ræðu sinni benti aðalframkvæmdastjórinn á að markmið Parísarsamningsins um hámark tveggja gráðu hitaaukningu í heiminum miðað við fyrir iðnbyltingu, hafi verið afar hógværi og í raun og veru „algjört lágmark“, til að koma í veg fyrir mesta skaðann af loftslagsbreytingum. „En vísindamenn segja að við séu langt frá því að ná þeim. Samkvæmt úttekt Sameinuðu þjóðanna eru skuldbindingar samkvæmt Parísarsamninginum aðeins þriðungur af því sem þarf.“

„Við skulum efla metnað okkar, stofna bandalög og knýja leiðtoga okkar til að hlusta. Ég mun skuldbinda sjálfan mig og Sameinuðu þjóðirnar í heild til að að standa að baki þessari viðleitni. Við munum styðja þá leiðtoga, sem munu rísa gegn þeirri vá sem ég hef lýst hér í dag…Örlögin eru í okkar höndum. Heimurinn treystir á að við munum rísa upp gegn þessari vá, áður en það er orðið of seint,” sagði Guterres.

Hér má lesa ræðuna í heild.

Mynd: Guterres flytur ræðu sína í höfuðstöðvum SÞ í gær. UN Photo/Eskinder Debebe.

Dagur hafsins 8.júní