Miðvikudagur, 24 júlí 2019
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Afmælisgjöf Eista til jarðarbúa: Hreinni heimur

Alþjoðahreinsun

13.september 2018.  Stjórnvöld í Eistlandi hafa ákveðið að styðja Alheimshreinsunardaginn 2018 til þess að fagna 100 ára afmælis sjálfstæðis landsins.

Alheimshreinsunardagurinn 15.september rekur uppruna sinn til aðgerðasinna í Eistlandi, sem skipulögðu sína fyrstu hreinsun fyrir tíu árum og virkjuðu 4% Eista.

Eistland fagnar aldar sjálfstæðisafmæli sama ár og Íslendingar fagna 100 ára fullveldisafmæli sínu. En sælla er að gefa en þiggja og af þessu tilefni nýtur átakið stuðnings eistneskra stjórnvalda: “Gjöf Eistlands til heimsins í tilefni afmælisins er Alþjóðahreinsunardagurinn 2018, gjöf sem felur í sér hreinni og heilbrigðari plánetu og betri framtíð fyrir alla.”

Sjálfboðaliðar í 150 löndum í heiminum, þar á meðal á Íslandi, munu leggja sín lóð á vogarskálarnar laugardaginn 15.september til að hreinsa strendur, ár, skóga og götur.

 Samtökin Kýlum á það heimur! (Let´s do it! World) standa að baki alheims-átakinu og er hugsunin sú að hver og einn einstaklingur geti lagt sitt af mörkum til þess að stuðla að jákvæðum breytingum. Ef aðeins ein manneskja ákveður að hreinsa til í götunni sinni og vinirnir fylgja í kjölfarið, hefur grettistaki verið lyft og jörðin er aðeins hreinni en áður.  En hreinsunardagurinn,  World Clean UP Day, snýst ekki um að hreinsa heiminn í einn dag.   „World Clean UP Day er ætlað að vekja heiminn til vitundar,” segir Eva Truuverk, oddviti Kýlum á það, heimur – samtakanna.  

Markmiðið er að fimm af hundraði íbúa landanna 150, sem taka þátt í átakinu, verði með. UN Environment, Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, styður átakið.

Norðurlöndin verða öll með. Hér á Íslandi eru það Blái herinn, Landvernd, JCI, Plastlaus september og plokkarar sem skipa íslenska liðið. Starfsmenn forsætisráðuneytisins ætla til dæmis að leggja átakinu lið við hreinsun á Víðasandi í Ölfusi. Sjá nánar hér. 

Victoria, krónprinsessa Svía heldur tölu til að fagna “Håll Sverige Rent-dagen” eins og Svíar nefna sitt framlag til alþjóðlega átaksins, en efnt verður til mikillar veislu í  Kungsträdgården í Stokkhólmi í dagslok.

Norðmenn láta sér ekki nægja einn dag heldur ætla að tína rusl alla vikuna 10.-16.september og fylkja liði með vígorðinu “Hold høsten ren”. 

Í Finlandi hafa verið skipulagðar aðgerðir vítt og breitt um landið frá Turku (Åbo) í suðri til Lapplands í norðri. 

Í Danmörku skipuleggja samtökin  Pastic change aðgerðirnar  en í Færeyjum eru það samtökin með skemmtilega nafninu Rudda Föroyar sem era hitann og þungan af átakinu. 

 Eitt er víst og það er að verkefnin eru næg bæði á landi og á sjó. Á hverju ári enda 8 milljónir tonna af plasti í heimshöfunum. Fyrr á þessu ári eggjaði António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna heimsbyggðina til að skera upp herör til að „sigrast á plast-menguninni,” og benti á að „örplasteindir í hafinu (væru) fleiri en stjörnurnar í vetrabrautinni.”

Sjá nánar um Alheimshreinsunardaginn á Íslandi hér og hér og erlendis hér.  

 

Dagur hafsins 8.júní