Mánudagur, 22 júlí 2019
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

4 milljónir eiga á hættu limlestingar á hverju ári

 FGM Aisha Ousman Photo Unicef Ethiopia Mersha RS

6.febrúar 2019. Talið er að fjórar milljónir stúlkna eigi á hættu að sæta limlestingum á kynfærum í heiminum á hverju ári. Það er hátt í íbúafjölda Noregs.

Kvalafullar aðgerðir af þessu tagi hafa verið gerðar á tvö hundruð milljón kvenna og stúlkna sem eru á lífi í heiminum í dag.

Í dag, 6.febrúar, er Alþjóðadagur algjörs umburðarleysis gagnvart kynfæra umskurði kvenna

„Kynfæraskurður kvenna er viðurstyggilegt mannréttindabrot sem snertir konur og stúlkur um allan heim,“ segir António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. „Þetta sviptir þær sæmd, stefnir heilsu þeirra í hættu og veldur óþarfa sársaka og kvölum , jafnvel dauða.“

 Kynfæralimlestingar eru stundaðar í 29 ríkjum í Afríku og Mið-Austurlöndum, auk Asíuríkja, þar á meðal Indlands, Indónesíu, Íraks og Pakistan. Þá er þetta stundað af nokkrum frumbyggjahópum í Suður-Ameríku.

Ekki má gleyma því að innflytjendur hafa flutt kynfæraskurð með sér til Evrópu, Norður-Ameríku, Ástralíu og Nýja Sjálands.

Flest Evrópuríki hafa bannað með lögum kynfæralimlestingar. Rannsóknir sýna að um 180 þúsund konur eiga á hættu að sæta slíkum limlestingum. Hálf milljón kvenna hefur sætt kynfæraskurði.

Norðurlönd eru ekki undantekning. Jafnréttisstofnun Evrópu (EIGE) telur að á bilinu 3-19% af stúlkum frá ríkjum þar sem kynfæraskurður er tíðkaður, séu líklegar til að sæta slíku þótt þær búi td. í Evrópu.

„Hver kona og stúlka á rétt á að lifa án ofbeldis og sársauka. En samt hafa 200 milljónir sætt sársakafullum og óhugnanlegum limlestingum á kynfærum, þar á meðal hálf milljón í Evrópu. Búast má við að 68 milljónir bætist við frá deginum í dag til 2020,” segja oddvitar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í sameiginlegri yfirlýsingu sem birtist í dag.

Stefnt er að útrýmingu kynfæralimlestinga kvenna í heiminum fyrir 2030 í Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun.

Dagur hafsins 8.júní