Fimmtudagur, 18 júlí 2019
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Guðlaugur gagnrýnir mannréttindabrjóta

 Guðlaugur Þór Marnnréttindaráð 2019

25.febrúar 2019. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra lýsti áhyggjum íslenskra stjórnvalda af vaxandi gyðinga- og múslimahatri í Evrópu, sem og gagnvart hinsegin fólki í Tsjetsjeníu og Tansaníu í ræðu á fundi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í dag.

Þá gagnrýndi ráðherra stjórnvöld í Tyrklandi fyrir handtökur á mannréttindaforkólfum, blaðamönnum og dómurum, og Sádi Arabíu fyrir bága stöðu mannréttinda og frelsis í landinu. Í því sambandi tilgreindi hann sérstaklega réttindi kvenna og morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi.

Jafnframt lagði Guðlaugur Þór áherslu á mikilvægi þess að hlúa að mannréttindaráðinu með virkri þátttöku jafnframt því sem unnið væri að endurbótum á starfsháttum þess. „Ríki sem taka sæti í ráðinu eiga að sýna gott fordæmi og vera búin undir að sæta gagnrýni þegar mannréttindi eru brotin,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðu sinni, en Ísland var kjörið til setu í ráðinu í fyrrasumar. Hann sagði of marga mannréttindabrjóta í ráðinu og talaði fyrir aukinni þátttöku smáríkja. „Ég vona að kjör Íslands í mannréttindaráðið geti orðið öðrum hvatning,“ sagði Guðlaugur.

(Frétt frá utanríkisráðinu).

Dagur hafsins 8.júní