Miðvikudagur, 24 júlí 2019
UNRIC logo - Íslenska

Sameinuðu þjóðirnar
á þínu máli

Nauðsynlegt að vernda hefðbundna þekkingu

indigen

22.apríl 2019. Hefðbundin þekking er kjarni sjálfsmyndar frumbyggja, menningar þeirra og arfleifðar um allan heim og ber að vernda, að sögn Anne Nuorgam, formanns Vettvangs frumbyggja hjá Sameinuðu þjóðunum.

Árlegt þing vettvangs frumbyggja hófst í gær í New York.

 Anne Nuorgam, situr á Samaþingi Finnlands og stýrir mannréttindanefnd þess. Hún sagði við upphaf þingsins að þar gæfist tækifæri til að skipast á nýjungum og aðferðum sem hefðu þróast innan samfélaga frumbyggja “á hundruð eða jafnvel þúsundum ára.”

Frumbyggjar eru innan við sex af hundraði jarðarbúa, en fimmtán af hundraði hinna fátækustu. Þeir búa í níutíu ríkjum, fimm þúsund menningarsamfélögum og tala mikinn meirihluta þeirra sex þúsund og sjö hundruð tungumála sem töluð eru á jörðunni.

Nurgam minnti á að árið 2019 er Alþjóðlegt ár frumbyggjamála og sagði að “við verðum að halda upp á tungumál okkar,og grípa til raunhæfra aðgerða til að vernda þau og bjarga þeim sem eru við það að glatast.”

Hún benti á að í mörgum ríkjum er börnum frumbyggja ekki kennt á móðurmálinu. Hún minnti á að samkvæmt fjórtándu grein Yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbbyggja (UNDRIP) hefðu frumbyggjar rétt á menntun á eigin máli.

“Hins vegar er þörf á fjárhagslegri og tæknilegri aðstoð frá aðildarríkjunum og Sameinuðu þjóða-kerfinu,” sagði Nuorgam.
Rannsóknir benda til að börn eigi auðveldasdt með að læra á móðurmálinu og Nuorgam hvatti alla til að “tryggja að börnin okkar…tengist frumbyggjasamfélögunum og menningu og þar með landi, landsvæðum og náttúruauðlindum.”

“Á þennan hátt verndum við hefðbundna þekkingu okkar.”

Maria Fernanda Espinosa, forseti Allsherjarþingsins sagði í ræðu við opnun þings vettvangs frumbyggja að yfirlýsingin um réttindi frumbyggja hefði markað tímamót. Hún kvaðst harma að enn væru þrándar í götu fyrir því að hún kæmi til framkvæmda. Heimurinn “á sögulegra skuld að gjalda frumbyggjum”.

Hún minnti einnig á stöðu frumbyggjakvenna. Þær væru hreyfiafl breytinga í baráttu gegn fátækt og hungri en sætti einni margs konar mismunun og ofbeldi.

Efnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) stofnaði Vettvang frumbyggja árið 2000 og er hlutverk hans að vera ráðinu ráðgjefandi um málefni frumbyggja.

 

 

Dagur hafsins 8.júní