Misjafnlega mikill árangur hefur náðst í að uppfylla þróunarmarkmiðin samkvæmt nýrri skýrslu – Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að stjórnmálaleiðtogar verði að standa við fyrirheit sín

Sameinuðu þjóðunum, Genf, 2. júlí.Verulegur árangur hefur náðst við að ná Þúsaldarmarkmiðunum um þróun þegar tíminn sem gefinn var til að ná þeim er hálfnaður.

        Markmiðin sem samþykkt voru á Þúsaldarleiðtogafundinum árið 2000 miðuðu að því að forða milljónum manna frá örbirgð fyrir árið 2015.

         Samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna  er þó síður en svo öruggt að þeim verði náð. “Niðurstöðurnar sem tíundaðar eru í þessari skýrslu benda til að nokkur framþróun hafi orðið og að það sé enn mögulegt að uppfylla markmiðin víðast hvar í veröldinni,” segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í formála Þúsaldarmarkmiðanna um þróun – Skýrslu 2007 sem gefiin var út í dag. “Þær gefa líka til kynna hversu mikið er óunnið.”
Nánast hvert einasta jarðarríki gekkst undir skuldbindingar á Þúsaldarleiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna árið 2000 sem snúast um átta markmið.
         Markmiðin lúta að mælanlegum árangri á tilteknum tíma í að uppræta algjöra örbirgð og hungur; sjá öllum börnum í heiminum fyrir grunnmenntun; stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna; draga úr ungbarnadauða; bæta heilsufar mæðra; berjast gegn HIV/Alnæmi, malaríu og fleiri sjúkdómum; stefna að sjálfbæru umhverfi og koma á fót félagsskap um þróun á heimsvísu.
           Verulegur árangur hefur náðst í að helminga örbirgð fyrir árið 20015, að því er fram kemur í skýrslunni. Hlutfall fólks í heiminum sem lifir á einum dollara á dag hefur minnkað úr 32 prósentum (1.25 milljarður 1990) í 19 prósent (980 milljónir 2004).
          Ef þessi þróun heldur áfram “mun Þúsaldarmarkmiðið um upprætingu örbirgðar nást á heimsvísu og í flestum heimshlutum,” segir í skýrslunni.
 Að auki er bent á að það vekji talsverðar vonir að nokkur árangur hafi náðst “meira að segja í þeim heimshlutum sem eiga hvað erfiðast uppdráttar.”
           Sem dæmi hefur fjöldi þeirra íbúa Afríku sunnan Sahara sem eiga við sárafátækt að stríða náð jafnvægi og fátæktarhlutfall lækkað um sex prósentustig frá árinu 2000.
           Í skýrslunni er bent á að í fjölda Afríkuríkja sé sýnt fram á að hraðar og stórstígar framfarir í þá átt að uppfylla Þúsaldarmarkmiðin eru mögulegar þegar saman fara, annars vegar öflug forysta ríkisstjórnar, heilbrigð stefnumótun og raunhæfar áætlanir um opinberar fjárfestingar og hins vegar nægjanlegur fjárhagslegur og tæknilegur stuðningur alþjóðasamfélagsins. 
            Jákvæðar fréttir koma líka frá Asíu sem virðist sigla hraðbyri í áttina að ná Þúsaldarmarkmiðunum í baráttunni gegn fátækt:
            Fleiri dæmi um árangur eru rakin í skýrslunni:

• Fleiri börn í þróunarríkjum ganga í skóla. Hlutfall barna í barnaskóla hefur aukist úr 80 prósentum 1991 í 88 prósent 2005.
• Konum hefur vaxið ásmeginn í jafnréttisbaráttunnni í kjölfar aukinnar þátttöku þeirra í stjórnmálum og ríkisstjórnum, en framþróun hefur þó verið hæg.
• Ungbarnadauði hefur minnkað um heim allan, þökk sé að miklu leyti ódýrum en skilvirkum aðgerðum á borð við bólusetningu gegn mislingum.
• Aðgerðir til að sporna við malaríu hafa náð verulegri útbreiðslu.
• Berklafaraldurinn er í rénum en árangur hefur ekki verið nægur til að brautin hafi verið rudd fyrir því að þúsaldarmarkmiðið um að helminga smit og dauðsföll fyrir 2015 náist.
• Útblástur gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast og veldur djúpstæðum loftslagsbreytingum sem ógna velferð mannkynsins. Árangur hefur hins vegar náðst í þróun sjálfbærra orkugjafa.

Þó er önnur hlið á tölfræðinni sem skýrslan byggir á sem er ekki jafn hvetjandi.

           Skýrslan leiðir í ljós að mest dró úr örbirgð í Suður-. Suðaustur og Austur-Asíu. Í Vestur –Asíu meir en tvöfaldaðist hins vegar hlutfall fátækra á sama tímabili. Og þrátt fyrir bata í Afríku sunnan Sahara, er hlutfall blásnauðra þar hið hæsta í heiminum.
           Fleiri alvarleg vandamál eru þrálát, samkvæmt skýrslunni. Meir en hálf milljón kvenna deyr á hverju ári af völdum erfiðleika i meðgöngu og fæðingu sem bæði er fyllilega hægt að koma í veg fyrir eða lækna. Það hefur ekki orðið mikill árangur í að helminga fjölda of léttra barna og fjöldi þeirra sem látast af alnæmi jókst úr 2.2 milljónum árið 1991 í 2.9 milljónir á síðasta ári auk þess sem fimmtán milljónir barna hafa misst annað eða bæði foreldri sín af völdum sjúkdómsins.
           Þar að auki hefur helmingur íbúa þróunarríkja engan aðgang að hreinlætisaðstöðu og hugsanlega hrikalegar afleiðingar loftslagsbreytinga eru farnar að koma fram.
          Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna bendir í formála sínum á að hluti af skýringunni á því að framþróun hefur látið á sér standa sé að ágóðinn af hagvexti skiptist ekki jafnt.
         Framkvæmdastjórinn bendir einnig á að flest þróuð ríki hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar um að útvega “fullnægjandi fjármögnun innan félagsskapar um þróun á heimsvísu innan ramma gagnkvæmrar ábyrgðar.”
           “Sér í lagi” skrifar framkvæmdastjórinn í inngangsorðum sínum að skýrslunni “gerir sú staðreynd að engin teljandi aukning hefur orðið á opinberri þróunaraðstoð   síðan 2004, það jafnvel best stjórnuðu ríkjunum ókleift að ná Þúsaldarmarkmiðunum.” Helstu iðnríki heims hétu því að tvöfalda aðstoð við Afríku fyrir árið 2010 á fundi sínum í Gleneagles 2005. Opinber þróunaraðstoð minnkaði hins vegar um 5.1 prósent að raunvirði á milli 2005 og 2006. Aðeins fimm ríki hafa náð því marki Sameinuðu þjóðanna að láta andvirði 0.7 prósenta þjóðarframleiðslu renna til opinberrar þróunaraðstoðar. “Það er greinilega nauðsynlegt að stjórnmálaleiðtogar grípi til brýnna og ákveðinna aðgerða,” skrifar framkvæmdastjórinn.
         José Antonio Ocampo, aðstoðarframkvæmdastjóri SÞ á sviði efnahags- og félagsmála segir að nýja skýrslan sé heildstæðasta mat á stöðu þúsaldarmarkmiðanna til þessa. Að hans sögn byggir hún á tölfræði frá meir en 20 stofnunum jafnt innan sem utan Sameinuðu þjóða kerfisins, þar á meðal Alþjóðabankanum og Efnahags og framfarastofnun Evrópu (OECD).

Nánari upplýsingar, sjá: www.un.org/millenniumgoals