130 milljónir manna reiða sig á mannúðaraðstoð

0
477
Funds resized

Funds resized

18.ágúst.2016. Sameinuðu þjóðirnar hafa útlutað 50 milljón Bandaríkjadala í mannúðaraðstoð til sex staða í heiminum sem hafa setið á hakanum.

Féð kemur úr Neyðarástandssjóði samtakanna (CERF) og mun koma tveimur milljónum manna til góða, þar af 200 þúsund flóttamönnum og 665 þúsund manns sem hafa lent á vergangi innan landamæra heimalanda sinna.

„Þessi fjárveiting er í raun líflína sem við köstum til þeirra jarðarbúa sem standa höllustum fæti; fórnarlamba deilna sem hafa gleymst,“ segir Stephen O´Brien, stjórnandi mannúðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum (OCHA).

„Metfjöldi eða 130 milljónir manna reiða sig á mannúðaraðstoð til að halda lífi. Samanlagt jafngildir þetta íbúafjölda tíunda fjölmennasta ríkis heims,“ segir Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni Alþjóðadags mannúðar sem haldinn er 19.ágúst ár hvert.

Fjárveitingin mun efla hjálparstarf í Mið-Afríkulýðveldinu, Tsjad og Lýðveldinu Kongó, auk Rúanda, sem hýsir flóttamenn frá Burundi og lýðveldinu Kongó. Þá mun hluta verða varið til hjálparstarfs í Erítreu vegna þurrka. Loks verður hjálparstarf í Jemen eflt, en þar þurfa 21.2 milljónir manna á mannúðaraðstoð að halda.

Mynd:Á meðal þeirra sem njóta góðs af úthlutun CERF eru íbúar Bambari í Mið-Afríkulýðveldinu. Mynd: OCHA/Gemma Cortes.