25 ár síðan ósonlaginu var bjargað

0
711

umhverfi
16. september 2012. Alþjóðlegur dagur Ósonlagsins er haldinn ár hvert 16. september en þann dag árið 1987 var svokallaður Montreal-sáttmáli undirritaður sem bannaði notkun efna sem ógna ósonlaginu. Ósonlagið er nefnt eftir efninu óson sem myndar hjúp umhverfis jörðina og verndar lífríki jarðarinar gegn útfjólubláum geislum sólarinnar.  Útfjólubláir geislar sólarinnar geta valdið húðkrabbameini, augnsjúkdómum og jafnvel bælt ónæmiskerfi líkamans.

Montreal-sáttmálinn sem undirritaður var fyrir 25 árum er talinn til fyrirmyndar fyrir alla viðleitni til að stemma stigu við umhverfisspjöllum
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir í ávarpi sínu á þessum alþjóðlega degi að nú hafi 98% af óson-eyðandi efnum verið útlæg ger og ósonlagið muni ná sér á næstu fimm áratugum.

”Ég hvet ríkisstjórnir og alla aðra hlutaðeigandi að vinna í sama anda að öðrum umhverfis- og þróunarmálum sem við er að glíma. Í sameiningu getum við skapað þá framtíð sem við öll viljum,” segir Ban Ki-moon.

Um árangurinn segir á Vísindavefnum: “Áhrifa þessara samþykkta er þegar farið að gæta og mælist nú til dæmis minna af klór í andrúmsloftinu en fyrir nokkrum árum. Tölvuspár sýna að klórmagnið í andrúmsloftinu fari minnkandi og verði um miðja þessa öld orðið svipað og það var árið 1960. Þessar breytingar munu endurspeglast í ósonmagni andrúmsloftsins og er gert ráð fyrir að seint á þessari öld verði það orðið svipað og það var um árið 1960.”