270 þúsund á flótta í Afganistan frá ársbyrjun

0
52

270 þúsund manns hefur verið stökkt á flótta í kjölfar brottkvaðningar erlendra hersveita frá Afganistan og sóknar Talibana í kjölfarið  að sögn Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Alls hafa 3.5 milljónir Afgana orðið að flýja heimili sín vegna ófriðar undanfarinna ára.

UNHCR segir að fólkið hafi flosnað upp vegna hótana vígasveita. Einnig stafar þeim  hætta af heimatilbúnum sprengjum, sérstaklega á vegarköntum. Ekki síður vegur hrun velferðarkerfis og tekjutap vegna öryggisleysis þungt á metunum.

Flóttamannahjálpin og samstarfsaðilar hennar hafa komið uppflosnuðum Afgönum til hjálpar. Komið hefur verið upp ð upp neyðarskýlum og tjöldum. Þá er þeim útvegaður matur vatn, læknishjálp og hreinlætis- og þvottaaðstaða. Erfitt er þó að koma aðstoð til margra bágstaddra hópa.

Að mati sveitar Sameinuðu þjóðanna í Afganistan (UNAMA) hefur manntjón óbreyttra borgar aukist um 28% á fyrsta ársfjórðungi miðað við sama tíma fyrir ári.

Sífellt fleiri konur og börn eru í skotlínunni.

„Þeir sem hafa komist á vergang standa afar höllum fæti“ segir talsmaður UNHCR Babar Baloch.

Gestrisni Írana og Pakistana

„Þanþol afgönsku þjóðarinnar er við það að bresta eftir áratuga átök. Auk þeirra fjölmörgu sem hrökklast hafa frá heimilum sínum, herjar COVID-19 á fólk auk nátturuhamfara svo sem þurrka, að ekki sé minnst á fátækt,“ sagði Baloch á blaðamannafundi í Genf.

Íran og Pakistan hýsa nærri 90% afganskra flóttamanna. Löndin hafa skotið skjólshúsi yfir flóttamennina og veitt þeim aðgang að heilbrigðis- og menntakerfi. Um 65% Afgana, innan og utan lands, eru börn og ungmenni.

„Gestrisni þeirra og sú stefna að veita þeim slíkan aðgang svo árum og áratugum skiptir, ber ekki að taka sem sjálfsagðan hlut,“ sagði Baloch.