38 stiga hitamet norðan við heimskautsbaug vekur ugg

0
618
Hitamet í Síberíu
Loftmynd af Síberíu.

Alþjóða veðurfræðistofnunin hefur samþykkt mælingar sem gefa til kynna að  hitamet hafi verið slegið í Síberíu um síðustu helgi. Hitastig hafi mælst 38° Celsius í bæ í Síberíu norðan við heimskautsbaug.

„Hitastigið á heimskautsbaug virðist hafa slegið met nú um helgina. Plánetan okkar er að senda okkur skýr skilaboð. Metnaðarfullar loftslagsaðgerðir #ClimateAction eru brýnni en nokkru sinni fyrr,” tísti António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Farið verður þó í saumana á mælingum áður en endanleg staðfesting verður gefin út að sögn  Clare Nullis talskonu Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar (WMO).

Hitametið var slegið í bænum Verkhoyansk Hitabylgja hefur geisað í Síberíu og sinu- og skógareldar hafa siglt í kjölfarið.

Metið var skráð 20.júní en bærinn er í norðurhluta Sakha-sjálfstjórnarlýðveldisins í austurhluta Síberíu en þar ríkir afar þurrt meginlandsloftslag sem einkennist af mjög köldum vetrum og að sama skapi heitum sumrum.

Hæsta hitastig sem mælst hefur á veðurathugunarstöðinni í Verkhoyansk frá því mælingar hófust á 19.öld var 37.3° C 15.júlí 1988. 30 stiga hiti er ekki óalgengur í júlí á þessum slóðum.

Hitamet á suður- og norðurskauti jarðar

Hitatölur af þessu tagi eru algengari í hitabeltinu en í Síberíu. Þetta eru þó ekki einu metin sem slegin hafa verið að undanförnu. Met var slagið þegar hiti mældist 18.4 °C á argentísku veðurathugunarstöðinni Esperanza á einum nyrsta odda Suðurskautlandsins 6.febrúar.

Norðurheimskautið hitnar tvöfalt meira en sem samsvarar heimsmeðaltali. Gögn WMO sýna að hiti á mörgum stöðum í Síberíu var um 10 °C gráðum hærri í maí en í meðalári. Varð þetta þess valdandi að maí var heitasti maí-mánuður í sögu mælinga á norðurhveli jarðar, “og líklega á heimsvísu líka,” bætti Clare Nullis við.

Lofthiti á Norðurheimskautinu frá 2016 til 2019 sló met. Það veldur þó ekki síður áhyggjum að ísmagn í lok september 2019 að loknu þiðnunartímanum yfir sumarið hafði minnkað um helming, 50%, miðað við meðaltal áranna 1979 til 2019.