40% innanlandsófriðar er barátta um auðlindir

0
461

Skógur

6. nóvember 2012. Nauðsynlegt er að efla tengsl á milli málefni friðar, þróunar og umhverfisins, segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni af Alþjóðlegum degi gegn notkun umhverfisins í stríði og við vopnuð átök sem er í dag 6. nóvember.

Hvetur framkvæmdastjórinn til þess að litið verði á frið og öryggi sem “fjórðu víddina” í hugtakinu “sjálfbær þróun.”

 “Stríð og vopnuð átök tvístra sjálfbærri þróun. Það getur aldrei orðið friður þegar afkomugrunnur fólks hefur verið rofinn eða eyðilagður, eða ef ólögleg misnotkun auðlinda veldur eða fjármagnar átök,” segir Ban. Allsherjarþingið samþykkti árið 2001 að beina kastljósinu að þessum málaflokki á alþjóðlegum degi með það fyrir augum að vekja athygli á tengslum átaka og umhverfisins.

Að mati Umhvefisáætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP), hefur að minnsta kosti  40 prósent alls innanlandsófriðar síðustu 60 ára, snúist að verulegu leyti um nýtingu náttúruauðlinda, hvort heldur sem er vöru á borð við timbur, demanta, gull eða olíu eða aðgang að frjósömu landi eða vatni.

Það sem meira er átök af þessu tagi eru viðvarandi og blossa gjarnan upp að nýju þótt það takist um stund að stilla til friðar. Framkvæmdastjórinn bendir á í ávarpi sínu að síðan 1990 hafi að minnsta kosti átján átök snúist um nýtingu náttúruauðlinda. Ban benti á að óttast væri að nýuppgötvaðir málmar í iðrum jarðar í Afganistan gætu orðið til að draga átök þar á langinn. Þá benti hann á að vígamenn í Kongó fjármögnuðu starfsemi sína með nýtingu eðalmálma.

Mynd: FAO/Giulio Napolitano