200 milljónir kvenna hafa sætt misþyrmingum á kynfærum

0
1061
FGM Alþjóðlegur dagur algjörs umburðarleysis gagnvart kynfæra-umskurði kvenna
Alþjóðlegur dagur algjörs umburðarleysis gagnvart kynfæra-umskurði kvenna. UNFPA_-_Georgina_Goodwin_2

Talið er að tvö hundruð milljónir kvenna í heiminum í dag hafi sætt misþyrmingum á kynfærum sínum. Búist er við að sextíu og átta milljónir kvenna bætist við þennan hóp fyrir 2030 ef ekki verður að gert.

Á Alþjóðlegum degi algjörs umburðarleysis gagnvart kynfæra-umskurði kvenna, 6.febrúar, hvetja Sameinuðu þjóðirnar til þess að barátta verði tvíefld í heiminum til að uppræta slíkar misþyrmingar.

Alþjóðlegur dagur algjörs umburðarleysis gagnvart kynfæra umskurði kvenna
Alþjóðlegur dagur algjörs umburðarleysis gagnvart kynfæra umskurði kvenna

Limlestingar á kynfærum

Kynfæra-umskurður eða misþyrmingar á kynfærum kvenna (FGM) vísa til hvers kyns verknaðar sem felur í sér brottnám ytri hluta kynfæra kvenna að einhverju eða öllu leyti. Einnig á þetta við um hvers kyns limlestingar á kynfærum kvenna að læknisaðgerðum slepptum.

Umskurður getur haft í för með sér skaðvænlegar afleiðingar til skemmri- og lengri tíma litið. Fylgifiskar geta verið stöðugir verkir, sýkingar, hætta á HIV-smiti, kvíði og þunglyndi, erfiðar fæðingar, ófrjósemi og jafnvel dauði.

En umskurður er ekki aðeins skaðlegur fyrir andlega og líkamlega heilsu heldur einnig gróft brot á réttindum kvenna og stúlkna, þar á meðal því meginsjónarmiði að jafnrétti skuli ríkja og engin mismunun á grundvelli kynferðis. Auk þess felast í athæfinu pyntingar, grimmileg-, niðrandi- og ómannúðleg meðferð, brot á réttindum barna og mörg önnur mannréttindabrot.

Ekki trúarlegt

Mikilvægt er að hafa í huga að kynfæra umskurður kvenna er ekki trúarlegt athæfi. Hann er tíðkaður af múslimum, kristnum mönnum og gyðingum. Umskurður kvenna tíðkast í 30 ríkjum í heiminum aðallega í Afríku, en einnig í Mið-Austurlöndum og Asíu. Aukinn flutningur fólks á milli landa hefur haft í för með sér að fleiri dæmi eru um slíkt í Evrópu, Ástralíu og Norður-Ameríku.

Kerfisbundins átaks er þörf til þess að binda enda á þetta athæfi. Virkja ber heilu samfélögin til að horfast í augu við mannréttinda og jafnréttishliðar vandans. Einnig verður að sinna kynferðislegu- og frjósemisheilsu kvenna og stúlkna sem hafa orðið fyrir barðinu á þessu.

Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og Barnahjálpin (UNICEF) hafa verið í fararbroddi í baráttunni gegn kynfæra-umskurðinum og beina sjónum sínum nú að 17 ríkjum í Afríku og Mið-Austurlöndum.

5. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun kveður á um að uppræta kynfæra-umskurð kvenna fyrir 2030.

Alþjóðlegur dagur umburðarleysis gagnvart kynfæraskurði kvenna
Ýmis verkfæri eru notuð til að framkvæma þennan sársaukafulla verknað sem oft stofnar lífi fórnarlambsins í hættu.