UNICEF: 5% Íslendinga hafa gerst heimsforeldri

0
462
alt

Landsmenn tóku vel í söfnunarátakið Dag rauða nefsins sem Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, stóð fyrir um síðustu helgi. Alls söfnuðust 173 milljónir króna og hátt í 2000 manns bættust í hóp heimsforeldra, mánaðarlegra styrktaraðila Barnahjálparinnar.alt
Heimsforeldrar eru því orðnir um 16.500 eða 5% þjóðarinnar og ársgrundvelli styrkja þeir börn í sárri neyð um 250 milljónir króna. Þetta sýnir hversu miklu máli hvert framlag skiptir.

Árangur söfnunarinnar fór fram úr björtustu vonum og er Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi ánægður með viðtökurnar. „UNICEF er þakklátt þeim einstaklingum sem lögðu málefninu lið þar sem vitað er að margir hafa ekki eins mikið á milli handanna og áður. Það er virðingavert að sjá hve mikið fólk er tilbúið að láta af hendi rakna í aðstæðum sem þessum í þeim tilgangi að rétta bágstöddum börnum úti í heimi hjálparhönd,“ sagði Stefán.

„Takmark okkar hjá UNICEF var að safna heimsforeldrum sem styðja reglulega við verkefni UNICEF. Það tókst svo um munar og erum við mjög þakklát fyrir það. Landsmenn tóku þessu átaki opnum örmum og árangurinn skiptir miklu máli fyrir börn víða um heim sem búa við afar erfiðar aðstæður,“ sagði Stefán.
Inntak Dags rauða nefsins er að hafa gaman af því að gefa og gleðja aðra. Fyrirtæki, skólar og stofnanir tóku átakinu fagnandi og brydduðu upp á ýmsu skemmtilegu í tengslum við það. Það voru því margir sem gerðu sér glaðan dag saman og lögðu um leið góðu málefni lið.

UNICEF vill koma fram bestu þökkum til Saga Film, Vodafone, Stöðvar 2, Íslandsbanka og allra samstarfsaðila sinna sem tóku þátt í Degi rauða nefsins. Eins hefði söfnunarátakið ekki orðið að veruleika ef ekki hefði verið fyrir þá fjölmörgu leikara og skemmtikrafta sem lögðu átakinu lið.

Af þeim 173 milljónum króna sem söfnuðust er stærstur hluti áheit framlaga heimsforeldra til næstu fjögurra ára, en einnig áætluð innkoma af sölu rauðra nefja, símaleik í útsendingu, stuðning fyrirtækja og eingreiðslum sem er alls 16,9 milljónir.
(www.mbl.is/www.unicef.is)