COVID-19: Frægir ljósmyndarar styðja bágstadda Indverja

0
472
COVID-19, Indland
Mynd: Sigga Marrow

Fjölmargir þekktir ljósmyndarar hafa tekið höndum saman til að safna fé handa indverskum daglaunamönnum og farandverkafólki sem eiga undir högg að sækja vegna COVID-19. Íslenski ljósmyndarinn Sigga Marrow er á meðal þeirra sem frumkvæði hafa átt að verkefninu Prints for India.

COVID-19, Printing for India
Mynd: Matilde Gattoni

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst miklum áhyggjum vegna þess hve harkalega aðgerðir indversku stjórnarinnar til að stemma stigu við útbreiðslu kórónaveirunni koma niður á þeim sem lökust hafa kjörin í landnu.

Ljósmyndararnir bjóða myndir sem teknar eru á Indlandi til prentunar gegn þóknun sem rennur til hinna bágstöddu. Þrír íslenskir ljósmyndarar eru á meðal þeirra sem gefið hafa verk til verkefnisins. Ljósmyndarar innan hinna virtu alþjóðlegu samtaka Magnum Photos eru á meðal þeirra sem gefa myndir til prentunar á þennan hátt, þar á meðal Sohrab Hura, Ed Kashi, Ken Hermann og Martin Parr.

Magnum námskeið

Mynd: Ed Kashi

„Við fjögur sem stöndum að þessu kynntumst á Magnum námskeiði með Martin Parr á Indlandi fyrr á árinu,” segir Sigga Marrow ljósmyndari í samtali við vefsíðu UNRIC. „Við búum hver í sínu heimshorni (London, Berlín, Reykjavík, Höfðaborg). en fengum þessa hugmynd í hópsamtali á Skype. Við höfum síðustu vikur verið að undirbúa í gegnum fjarbúnað, prentsölu til styrkar fjölskyldum sem misst hafa sitt daglegt brauð í kjölfar útgöngubanns sem sett var á á Indlandi.”

Sigga segir að þegar þau hafi verið á námskeiðinu í Dehli í janúar hafi aðeins frekar óljósar fréttir verið af kórónaveirunni í Kína.

„Það er ótrúlegt að hugsa til þess að fyrir 2 mánuðum vorum við stödd í Delhi. Málin hafa heldur betur þróast á stuttum tíma og höfum við fengið heimslið ljósmyndara með okkur í lið.“

Martin Parr fyrrverandi forseti Magnum tekur við af indverska ljósmyndaranum Sohrab Hura á föstudag sem ljósmyndari vikunnar. Öll prent kosta andvirði 80 Sterlingspunda og stendur verkefnið til 22.maí.

Milljónir innilokaðar

COVID-19, Printing for India
Mynd: Ole Witt.

Lokunaraðgerðir hafa skapað gríðarlegan vanda á Indlandi og komast milljónir daglaunamanna og farandverkafólks hvorki lönd né strönd, eru innilokuð án nokkura tekna.

Mannréttindasjóri Sameinuðu þjóðanna Michel Bachelet hefur látið í ljós miklar áhyggjur af örlögum þessa fólks.

„Það er mjög brýnt að tryggt verði að andsvör við COVID-19 feli hvorki í sér mismunun né auki ójöfnuð eða komi harðast niður á þeim sem minnst mega sín,” segir Bachelet í sérstakri yfirlýsingu.

Frá þvi gripið var til samkomubanns og þvingaðra lokunaraðgerða hafa milljónir blásnauðra farandverka- og daglaunamanna verið án atvinnu og hvorki getað borgað leigu né mat. Hundruð þúsunda hafa hvorki getað séð fyrir sér né átt höfði sínu að að halla neins staðar. Þeir hafa orðið að fara fótgangandi í átt til heimahaga sinna því opinberar samgöngur liggja niðri. Dæmi eru um að fólki hafi dáið á slíkum ferðum.

Heimslið ljósmyndara

COVID-19, Printing for India
Mynd: Anurag Banerj

„Félagi okkar indverskur blaðamaður og ljósmyndari dreifði í fyrstu sjálfur mat til bágstaddra. Það gekk ekki upp til lengdar og við erum núna í samstarfi við virt félagasamtök GOONJ. Þau starfa um allt Indland og koma þeim sem verða mest fyrir barðinu á COVID-19 til hjálpar,“ segir Sigga Marrow. „Við erum mjög stolt af því að þetta hefur undið upp á sig og núna erum við með sannkallað heimslið ljósmyndara í okkar hópi.“

Afrakstur fyrstu fjögurra dagana var andvirði 10 þúsund punda og búast má við að hjólin fari að snúast verulega þegar þekktustu ljósmyndararnir bjóða verk sín til prentunar, en Martin Parr tekur við af Sohrab Hura á föstudag í eina viku.

Hér er heimasíða Prints for India: https://printsforindia.com