Greta Thunberg til stuðnings UNICEF

0
923
Greta Thunberg UNICEF
Greta Thunberg Mynd UNICEF

Sænska baráttukonan Greta Thunberg hefur ýtt úr vör herferð helgaða réttindum barna í samvinnu við dönsku samtökin Human Act til stuðnings viðleitni UNICEF við að vernda börn í heiminum fyrir beinum og óbeinum áhrifum COVID-19. Þar má nefna matarskort, álag á heilbrigðiskerfi, ofbeldi og niðurfellda kennslu.

„Rétt eins og loftslagsváin snýst kórónaveirufaraldurinn líka um réttindi barna,“ segir Greta Thunberg. „Hann mun snerta öll börn þessa stundina og til lengri tíma litið, en kemur harðast niður á þeim sem höllustum standa fæti. Ég bið alla um að leggja sitt af mörkum og slást í lið með mér til stuðnings þýðingarmiklu starfi UNICEF til að bjarga lífum barna, vernda heilsu þeirra og áframhaldandi menntun.“

Herferðin hefst með 200 þúsund Bandaríkjadala framlagi Human Act og Greta Thunberg sjóðsins til UNICEF. Greta Thunberg fékk nýlega verðlaun Human Act að andvirði 100 þúsund dala og rennur sú upphæð beint til viðtleitni UNICEF til að takast á við afleiðingar COVID-19. Þetta framlag verður notað til kaupa á sápu, andlitsgrímum, hönskum, hreinlætisvörum, öryggisbúnaði og útgáfu lífsnauðsynlegra upplýsinga og til stuðnings heilsugæslu.

Sýnt var fram á í skýrslu Sameinuðu þjóðanna fyrr í þessum mánuði að börn væru á meðal helstu fórnarlamba COVID-19 faraldursins.

Börn verða að vísu síður fyrir barðinu á veirunni sjálfri en ástandið hefur verulega áhrirf á velferð þeirra. Öll börn hvar sem þau búa og á hvaða aldri sem þau eru finan fyrir félagslegum- og efnahagslegum afleiðingum varnaraðgerða gegn útbreiðslu veirunnar.

„Kórónaveirufaraldurinn er tröllauknasta glíma heimsins í marga áratugi,“ segir Henrietta Fore, forstjóri UNICEF. „Með virkni sinni hefur Great Thunberg sýnt og sannað að ungt fólk er reiðubúið að láta til sín taka og taka stjórnina í heiminum. UNICEF er himinifandi að Greta og stuðningsmenn hennar hafa ekki aðeins ákveðið að taka slaginn, heldur vilja gera það í samstarfi við UNICEF.“