6 þúsund gegn sóun matvæla á Ráðhústorginu

0
432
raadhus

raadhus

13. október 2014. Skipuleggjendur telja að samkoma sem haldin var gegn sóun matvæla í Kaupmannahöfn í síðustu viku hafi verið fjölsóttasta aðgerð í þessum málaflokki í heiminum til þessa.

Rúmlega sex þúsund manns sóttu samkomu að frumkvæði samtakanna Stop Spild af mad með Selina Juul, handhafa Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í broddi fylkingar. Danska umhverfisráðuneytið studdi frumkvæðið.

Tveir danskir ráðherrar, Kirsten Brosbøl, umhverfisráðherra og  Dan Jørgensen, matvælaráðherra fluttu ávörp en einnig voru viðstaddir John M.Christensen frá UNEP, Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna og Gitte Seebrg, framkvæmdastjóri WWF.

Þúsundir manna snæddu mat sem búinn var til úr hráefni sem annars hefði farið á haugana. Nýleg Gallup könnun bendir til að meir en þriðjungur Dana hendi nú minni mat en fyrir nokkrum árum.

„Það er bæði slæmt fyrir umhverfið og slæmt fyrir seðlaveskið þegar maður hendir neysluhæfum mat í ruslafötuna,“ segir Kirsten Brosbøll, umhverfisráðherra Danmerkur. „Á dæmigerðu dönsku heimili  er hent notfhæfum mat fyrir 60 til 75 þúsund krónur á ári. Gerum eitthvað í málinu! Þess vegna styð ég frumkvæði af þessu tagi. Ríkisstjórnin ætlar að grípa til margs konar aðgerða til þess að styðja baráttuna gegn sóun matvæla.“

„Við erum himinlifandi yfir því hve margir aðilar úr allri fæðukeðjunni taka þátt í þessari samkomu,“ segir Selina Juul, frumkvöðull Sameinuð gegn matarsóun. Hún bætti við að óvíða í heiminum væri sóun matvæla jafn ofarlega á baugi og í Danmörku.

Nánari upplýsingar:  www.unitedagainstfoodwaste.com og https://www.facebook.com/Madspild

Myndir: Anette Vadla Ravnås