700 þúsund manns taka líf sitt árlega

0
552

 700 þúsund manns í heiminum kjósa að binda enda á líf sitt á ári hverju eða sem svarar til nærri tvöfalds íbúafjölda Íslands. 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og byggir á tölum frá 2019. WHO hefur í framhaldinu gefið út  vegvísi –  LIVE LIFE- handa aðildarríkjum sínum. Markmiðið er að draga úr sjálfsvígum um þriðung fyrir 2030.

Samkvæmt skýrslunni eru sjálfsvíg ein helsta dánarorsök um allan heim. Fleiri falla fyrir eigin hendi en þeir sem látast af völdum HIV, mýrarköldu (malaríu), brjóstakrabbameins, stríðs eða manndrápa.

„Við hvorki getum né megum leiða sjálfsvíg hjá okkur,“ segir Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.

Álag vegna COVID

COVID-19 faraldurinn og fylgifiskar hans hafa lagst á eitt við að auka álagið á marga einstaklinga. Atvinnumissir, fjárhagsáhyggjur og aukin félagsleg einangrun eru á meðal áhættuþátta sem fylgt hafa COVID-19. Af þeim sökum er forvarnarstarf gegn sjálfsvígum mikilvægara en nokkru sinni fyrr.

Vegvísir WHO markar braut í baráttunni gegn sjálfsvígum að mati stofnunarinnar.

 Sjálfsvíg var fjórða algengasta dánarorsök í aldursflokknum 15-29 ára í heiminum 2019. Aðeins umferðarslys, berklar og ofbeldi voru algengari dánarorsakir, að því er fram kemur í skýrslunni „Sjálfsvíg í heiminum 2019.“ Tíðnin er mismikil eftir löndum, heimshlutum og kyni. Þannig fyrirfara tvisvar sinnum fleiri karlar sér en konur. Tíðnin er yfirleitt hæst en ríkustu löndunum.

„Hvert einasta sjálfsvíg er harmleikur,“ segir Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.

Forvarnir og fjölmiðlar

Vegvísir WHO er í fjórum liðum. Takmarka ber aðgang að hverju því sem nota má til sjálfsvíga. Koma þarf upplýsingum um ábyrga umfjöllun um sjálfsvíg á framfæri við fjölmiðla. Efla þarf lífsleikni á meðal ungmenna. Þá er snemmbær greining, umönnun og eftirfylgni mikilvæg þegar sjálfsvígshugsanir og hegðun lætur á sér kræla.

Í vegvísinum er sérstaklega bent á að á öld samfélagsmiðla kann umfjöllun í fjölmiðlum, einkum þegar frægt fólk er annars vegar, að hrinda af stað öldu eftirherma. Bent er á hve mikilvægt kann að bjóða upp á valkosti, það er að segja umfjöllun um hvernig fólk getur sigrast á geðheilbrigðisvanda og sjálfsvígsþönkum. Sérstaklega er mælt með samvinnu við fyrirtæki sem reka samskiptamiðla til að auka vitund um vandann og fjarlægja hættuleg innlegg.

Unglingsár

Í helmingi tilfella koma geðheilbrigðisvandamál fram áður en börn verða 14 ára gömul. Unglingsárin skipta því sköpum að mati WHO. Stofnunin mælir sérstaklega með viðnámi við einelti, stuðningi og skýrum verkferlum fyrir alla starfsmenn skóla, þegar sjálfsvígshætta hefur verið greind.

Þjálfa ber heilbrigðisstarfsmenn í snemmbærri greiningu, mati, stýringu og eftirfylgni. Einstaklingum sem eru í uppnámi ættu að standa til boða þjónusta að því er segir í vegvísinum.

„Takmark hverrar ríkisstjórnar ætti að vera heildstæð stefnumótun til að hindra sjálfsvíg,“ segir Alexandra Fleischmannsérfræðingur WHO í forvörnum gegn sjálfsvígum. „Vegvísirinn getur bjargað mannslífum og komið í veg fyrir sorg og hjartasár aðstandenda og vina sem eftir standa.“

Vegvísi WHO má sjá hér.  

Ástæða er til að benda á þjónustu Rauða Kross Íslands.