92 milljónir króna söfnuðust í Fiðrildaviku UNIFEM

0
435

 „Eitt mest skapandi fjáröflunarverkefni sem ég hef orðið vitni að," segir Joanne Sandler aðalframkvæmdastýra UNIFEM í New York
 •         Upphæðin með því hæsta sem tekist hefur að safna í einu átaki á Íslandi
•         Fjáröflunin byggð á tengslaneti kvenna
•         Aðalframkvæmdarstýra UNIFEM í New York segir Fiðrildavikuna setja mikilvægt fordæmi fyrir aðrar landsnefnir UNIFEM víða um heim

Áætlað er að 92 milljónir hafi safnast í Fiðrildaviku UNIFEM, sem er fyrsta landssöfnun sem UNIFEM á Íslandi skipuleggur. Joanne Sandler, aðalframkvæmdarstýra UNIFEM í New York, segir Fiðrildavikuna að mörgu leyti tákna vatnaskil í sögu stofnunarinnar og vera fordæmisgefandi fyrir aðrar landsnefndir UNIFEM víða um heim.

Söfnunarféð rennur í Styrktarsjóð UNIFEM til afnáms ofbeldis gegn konum en hann er byggður á frjálsum framlögum. Styrktarsjóðurinn er eini sjóður sinnar tegundar í heiminum en hann sýnir glögglega hversu mikil þörf á aðstoð er til staðar en lítið fjármagn til að mæta þessari þörf. Í fyrra var aðeins hægt að fjármagna 6% þeirra umsókna sem bárust í sjóðinn, en þá nam hann 5.1 milljón Bandaríkjadala. Þrátt fyrir þetta hefur sjóðurinn vaxið frá árinu 2005, en þá var hann 1.75 milljónir Bandaríkjadala. Til viðmiðunar er söfnunarfé Fiðrildavikunnar um það bil 1.353 milljónir Bandaríkjadala.

Sandler segir upphæðina sjálfa vera með því hæsta sem sjóðnum hefur borist í gegnum landsnefnd. „Við eigum ekki til orð yfir þann stuðning við málefnið sem UNIFEM á Íslandi hefur tekist að virkja meðal Íslendinga, ekki aðeins í formi fjármagns heldur líka jákvæðum viðhorfum fólks. Kynjajafnrétti verður ekki að veruleika nema við náum að veita hverju öðru innblástur til verka. Fiðrildavikan er eitt verkefna sem hafa náð þessu markmiði, en Fiðrildaátakið allt er eitt mest skapandi fjáröflunarverkefnið sem ég hef orðið vitni að."

Margar fjáröflunarleiðir farnar

Fjáröflunarleiðir voru margþættar, lögð var áhersla á að ná til sem flestra.
•         Sýndar voru örmyndir UNIFEM í Kastljósi 3.-6. mars þar sem vakin var athygli á málefninu og Fiðrildavikunni og styrktarborði með símanúmerum sýndur á skjánnum.
•         Hægt var að gefa í söfnunina í gegnum heimasíðuna og með því að leggja inn á söfnunarreikning UNIFEM.
•         BAS-hópurinn gekk til góðs miðvikudagskvöldið 5. mars og vakti þannig athygli almennings á málefninu og hvatti fólk til að leggja söfnuninni lið.
•         Þann 7. mars skipulagði Vatnadansmeyjafélagið Hrafnhildur, í samvinnu við Saltfélagið og UNIFEM á Íslandi, uppboð á um það bil 300 brjóstum sem hekluð voru af konum og stúlkum víðsvegar um land í tengslum við uppsetninguna Gyðjan í vélinni í varðskipinu Óðni sl. sumar.
•         Fjáröflunarkvöldverður í húsi Frímúrara á Skúlagötu 51 að kvöldi 8. mars.

Útgangspunktur í fjáröflun var tengslanet kvenna
Ofbeldi gegn konum, þ.m.t. ofbeldi gegn konum og stúlkum á átakasvæðum, er myrkt málefni og svartur blettur á samtímasögu okkar. Talið er að ein af hverjum þremur konum verði fyrir kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni. Í átökunum í þeim löndum sem söfnunin beindist að, Líberíu, Súdan og Lýðveldinu Kongó, má með sanni segja að blóðugir bardagar stríðandi fylkinga hafi átt og eigi sér stað á líkömum kvenna og stúlkna. Nauðgun og gróft kynferðislegt ofbeldi er hluti af hernaðaráætlunum og þeirri óreiðu sem skapast hefur eftir margra ára stríð í löndunum þremur. Það eru dæmi þess að í sumum þorpum í Austur-Kongó hafi öllum konum og stúlkum verið nauðgað.

Hluti af hugmyndafræði Fiðrildavikunnar er að leggja áherslu á samtakamátt kvenna, halda uppi þeim gildum sem gjarnan eru tileinkuð konum og virkja kraft íslenskra kvenna í þágu kvenna og stúlkna í Líberíu, Súdan og Kongó. Sem dæmi um þetta voru allar leiðir til fjáröflunar farnar fyrst og fremst í gegnum tengslanet kvenna. Elínrós Líndal hafði yfirumsjón með fjáröfluninni og kann UNIFEM á Íslandi henni bestu þakkir fyrir glæsilegt starf. UNIFEM áætlar að alls hafi safnast 92 milljónir króna, sem er með því hæsta sem tekist hefur að safna í einu átaki á Íslandi til þessa. Fiðrildavika UNIFEM er fyrsta landssöfnun sem UNIFEM á Íslandi skipuleggur.

Samstarfsverkefni UNIFEM og utanríkisráðuneytisins
Komist hefur á samstarfsverkefni UNIFEM á Íslandi, utanríkisráðneytisins og UNIFEM í New York sem snýr að verkefnum í Karíbahafi.