Á hverri mínútu missa átta allt sitt

0
408

Fair play

20.júní 2014. Á sama tíma og heimsbyggðin situr límd við skjáin að horfa á HM í fótbolta, neyðast átta jarðarbúar á hverri mínútu að flýja land sitt.

Á meðan á hverjum leik stendur hafa 720 manneskjur orðið að flýja og skilja allt sitt eftir. Alls eru nú fimmtíu milljónir flóttamanna í heiminum.

Samkvæmt nýrri úttekt Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hefur fjöldi flóttamanna, hælisleitenda og fólks sem flosnað hefur upp innan heimalands síns, ekki verið hærri síðan í Síðari heimsstyrjöldinni.

„Við horfumst nú í augu við kostnaðinn af því að kæfa ekki styrjaldarátök í fæðingu og borgum reikninginn fyrir að hafa ekki leyst eða komið í veg fyrir átök,“ segir António Guterres, forstjóri Flóttamannahjálparinnar.

Sameinuðu þjóðirnar gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að lina þjáningar flóttamanna og að ráðast að rótum þessa hörmulega hnattræna vandamáls. „Við sjáum í dag að það hallar mjög á friðarviðleitni. Hjálparstarfsmenn gera vissulega gagn en það sem við þurfum mest á að halda eru pólitískar lausnir. Án þeirra munu átök halda áfram að vera jafn skelfilega tíð og raun ber vitni og fjöldi fólks líða miklar þjáningar,“ segir Guterres.
Fjölmennustu hópar flóttamanna sem falla undir starfsvið UNHCR eru Afganir, Sýrlendingar og Sómalir en þessi þrír hópar eru helmingur þessa fjölda. Palestínskir flóttamenn falla undir aðra stofnun Sameinuðu þjóðanna, Palestínuhjálpina (UNRWA).