Að lýsa upp hin dimmu Norðurlönd

0
819

Ljósið hefur ævinlega verið Norðurlandabúum kært, enda þekkja þeir bæði dimmar vetrarnætur og sólríka sumardaga.  Ýmsir hafa lifibrauð sitt af ljósi; hvort heldur sem er af því að lýsa upp hversdaginn eða fanga hann á filmu. Sunnudagurinn 16.maí er Alþjóðlegur dagur ljóssins.  

Fólk hvaðanæfa að úr heiminum ferðast til norðurhluta Skandinavíuskagans, að ekki sé minnst á Ísland og Grænland, til að njóta ljóssins í sínum ýmsu birtingarmyndum.

„Norræn birta er mjög sérstök með sínu lága sjónarhorni og hægri umbreytingu frá degi til nætur, langri sólarupprás og sólsetrum að ógleymdum blámanum,“ segir Ute Besenecker ljósahönnuður og prófessor við KTH, Konunglegu tæknistofnunina í Stokkhólmi.

Þessi sérstaða hefur aðdráttarafl og hrífur fólk. Og svo virðist sem fólk verði bergnumið af norrænu birtunni.

„Ég verð aldrei þreyttur af því að fanga þessa birtu,“ segir ljósmyndarinn Peter Rosén. „Hún er líf mitt og vinna.“

Tengsl okkar við ljósið.   

Ljós er vitaskuld forsenda lífsins í krafti ljóstillífunar.

„Ljós er okkur jafn mikilvægt og fæða,“ segir dr. Besenecker. „Án ljóss væri ekki til sjáanlegur heimur, engir litir og engin rúmfræðileg reynsla.“

Ljós hefur áhrif á okkur öll og tímaskyn okkar. Ljósmagnið hefur áhrif á svefn okkar og lund.

Starf dr. Besenecker við ljóshönnun hefur að markmiði að sýna tengsl okkar við ljós sem kjarna daglegrar reynslu okkar. En þótt ljós innanhús skipti máli er ekki hægt að ofmeta náttúrulegt sólarljós.

„Margir skilja ekki hversu miklu máli það skiptir að vera úti í dagsljósinu. Ljósið sem við nemum í göngutúr utandyra að degi til hefur meiri þýðingu en innanhúslýsing.“

Tengsl Norðurlandabúa við ljósið eru sterk enda hefur hver árstíð sína birtu.

„Hin mikla fjölbreytni ljóssins á einum og sama degi og auðvitað munurinn á vetri og sumri hefur áhrif á venjur fólks, litaval og almenn tengsl við ljós,“ segir hún.

 Norræn ljós og norðurljós

Á Norðurlöndum hefur lýsing innanhúss og ljóshönnun mikinn sess í daglegu lífi. En grundvallartengsl okkar eru við birtuna að ofan.


Í norrænni menningu er mikil áhersla á ljós. Endalausar bjartar sumarnætur víkja um síðir fyrir dimmum vetrarnóttum- og dögum. Því hefur mikla þýðingu í norrænni menningu að skapa ljós og lýsingu. En jafnvel á dimmustu vetrarnóttum er von á birtu á himni.

„Norðurljósin eru stór hluti af ljósmynda-hópstarfi mínu og leiðsögn,“ segir Rosén. Hann er leiðsögumaður og ljósmyndari í Abisko í norðurhluta Svíþjóðar.

Fólk alls staðar að flykkist til sænska og finnska Lapplands, Tromsø í Noregi og til Íslands í von um að sjá dansandi ljós á himni.

„Það er erfitt fyrir þá sem ekki hafa reynsluna af Vetrarbrautinni og norðurljósunum á myrkum himni að gera sér í hugarlund hvernig það lítur út,“ segir Rosén.

Draumur sem rættist  

Hver sá sem séð hefur norðurljós getur sett sig í fótspor þeirra sem ferðast um langan veg til að sjá þau.

Rosén segir sögu af ungri franskri konu sem hafði ferðast um allan heim í von um að upplifa norðurljós, þangað til hún kom til Abisko.

„Hún hafði lesið barnabók í æsku um norðurljós og langaði til að láta barnadraum sinn rætast og sjá þau dansa. Þrátt fyrir vonda spá, birtust ljósin og dönsuðu fyrir hana mörg kvöld i röð. Hún grét af gleði.“

Og hún er ekki sú eina. Rosén hefur kynnt fjölmörgum furðu lostnum ferðamönnum fyrir undrum Aurora Borealis, eins og norðurljósin heita á mörgum tungumálum.

Þegar myrkrið lætur undan 

Okkur ber að virða ljós og hvernig og hvar við beitum því. Ljósmengun er vaxandi vandamál.

„Ljósið hefur mikla þýðingu fyrir túrisma hér í Svíþjóð,“ segir Rosén „Ljósmengun er ógn við okkar starf. Stjörnuljósmyndun er háð náttúrulegum aðstæðum án tilbúinnar birtu.“

Hann segist sjá ljós frá Kiruna í fimmtán kílómetra fjarlægð frá Abisko og Narvik álíka langt frá. „Það eru ekki margir staðir eftir þar sem maður hvorki sér né verður fyrir áhrifum frá gervibirtu.“

Villt dýr eru háð dægursveiflum sem ráðast að hluta af ljósi. Náttúruverndarsamtök á borð við WWF telja að ljós- og hávaðamengun, auk annarar mengunar, ógni jafnt fjólki sem villtum dýrum. Af þessum sökum er þetta verðugt verkefni vísinda.

„Við vinnum að því að lágmarka ljós utandyra til að vernda villt dýr og vistkerfi, en fullnægja á sama tíma þörfum og þægindum fólksins, einkum á dimmasta hluta ársins,“ segir dr. Besenecker.

16.maí á Alþjóðlegum degi ljóssins er ljósi í öllum sínum formi fagnað. Beint er sjónum að því hvernig það leikur lykilhlutverk í menningu, listum og vísindum, auk menntunar, sjálfbærrar þróunar og læknisfræði. Sunnudaginn 16.maí halda Sameinuðu þjóðirnar og UNESCO hátíðlegan Alþjóðlegan dag ljóssins.