Aðeins 4% portúgölskumælandi fólks býr í Portúgal

0
155
Dagur portúgalskrar tungu
Dagur portúgalskrar tungu. Frá vinstri að ofan og réttsælis: Rio de Janeiro, angólsk kona, António Guterres, Lissabon, Gisele Bündchen og í miðið frímerki með mynd af Fernando Magellan.

Portúgalska. UNESCO. Dagur portúgalskrar tungu er haldinn 5.maí ár hvert. Markmiðið er að fylkja liði portúgölskumælandi fólks um allan heim og halda upp á tungumálið og menninguna.

Fadóleikarar í los Jeronimos klaustrinu í Lissabon.
Fadóleikarar í los Jeronimos klaustrinu í Lissabon. Mynd: Laluipa/Public Domain/Wikimedia Commons.

230 milljónir tala portúgölsku sem fyrsta mál og allt að 35 milljónir sem annað mál. Portúgalska er latneskt mál sem á rætur að rekja til Portúgals. Þorri portúgölskumælandi fólks býr hins vegar í Brasilíu. 205 milljónir Brasilíumanna tala portúgölsku og eru það tæplega 80% allra portúgölskumælandi í heiminum, en aðeins 10 milljónir í Portúgal.

Portúgalska er opinbert mál Portúgals, Brasilíu, Grænhöfðaeyja, Angóla, Mósambík, Gíneu-Bissau og São Tomé og Príncipe. Þá er hún annað tveggja opinberra mála í Austur-Tímor, Miðbaugs-Gíneu og Macau.

Dagur portúgalskrar tungu
José Saramago þakkað eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Mynd. Jani 19/CC BY-SA 3.0

Það væri að æra óstöðugan að telja upp alla þá kunnu portúgölskumælandi karla og konur, sem hafa öðlast heimsfrægð. Nefna má landkönnuði á borð við Magellan og Vasco da Gama, stjórnmálaleiðtoga á borð við António Guterres hjá Sameinuðu þjóðunum og José Manuel Barroso hjá ESB og NATO, að ekki sé minnst á íþróttahetjur á borð við Pelé, Eusebio og Cristiano Ronaldo.

Astrud Gilberto
Astrud Gilberto gerði lagið um stúlkuna frá Ipanema eftir Antônio Carlos Jobim heimsfrægt. Mynd: Kroon, Ron / Anefo, Wikimedia Commons

Sömbuna, bossanova og fadó-tónlistina má rekja til Brasilíu og Portúgals og þekkt tónlistarfólk á borð við Antônio Carlos Jobim, Joao og Astrud Gilberto og ofurfyrirsætuna Gisele Bündchen. Þá er ástæðulaust að gleyma José Saramago, eina portúgölskumælandi rithöfundi sem hlotið hefur Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, José Amado, Paulo Coelho, Fernando Pessoa og arkitektinum Oscar Niemeyer.

Sjá nánar á vefsíðu UNESCO.