#AðeinsSaman: Bólusetja ber alla heimsbyggðina

0
269

Sameinuðu þjóðirnar hafa hleypt af stokkunum nýrri alheimsherferð til stuðnings þeirri kröfu að bóluefni við COVID-19 verði öllum jarðarbúum aðgengilegt. Herferðin ber heitið #AðeinsSaman eða #OnlyTogether.

Áhersla er lögð á þörfinni á samræmdum aðgerðum um allan heim til að tryggja að bóluefni sé fyrirliggjandi í öllum ríkjum heims. Hefjast ber handa við að bólusetja heilbrigðisstarfsmenn og þá sem eru í áhættuhópum.

„Undanfarið ár höfum við öll farið á mis við margt sem okkur skiptir máli. Við höfum ekki mátt borða saman, faðmast, fara í skóla eða vinnu,“ segir Amina Mohammed vara-aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. „Milljónir okkar hafa misst einhvern nákominn og lifibrauðið. Fordæmalaust vísindalegt átak hefur skilað bóluefni sem hefur gefið okkur von um að sigrast á veirunni. En það mun ekki takast nema að við tökum höndum saman um að tryggja að allir, alls staðar hafi aðgang að bóluefni við COVID-19. Við getum aðeins sigrast á veirunni í sameiningu.“

10 ríki eiga 80% bóluefnis

Meir en tvær og hálf milljón manna hafa látið lífið af völdum COVID-19 að mati Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.

Milljónum skamma af bóluefni hefur verið dreift um allan heim þökk sé COVAX-samstarfsverkefninu. En skammtarnir duga aðeins í fyrstu til að bólusetja örlítinn hluta hverrar þjóðar, fyrst og fremst heilbrigðisstarfsmenn og þá sem eru í áhættuhópum. Markmiðið er að í árslok hafi 30% allra þjóða innan COVAX verið bólusett.

Hins vegar stefna ríkustu lönd heims flest að því að ljúka bólusetningu allra sinna þegna á næstu mánuðum. Tíu auðugustu ríkin hafa keypt 80% alls bóluefnis.

COVAX- samstarfsverkefnið undir forystu Alþjðóða heilbrigðismálastofnunarinnar og tveggja annara alþjóðsamatka (GAVI og CEPI) í samstarfi við UNICEF hefur 190 aðildarríki.

Talið er að það þurfi 2 milljarða Bandaríkjadala til að fjármagna bólusetningar-markmið þess.