Aðgerðir verða að fylgja orðum

0
628
Mótmæli svartra embættismanna SÞ
Mótmæli í New York borg 2.júní 2020. Mynd: UN Photo Evan Schneider

Tuttugu háttsettir embættismenn Sameinuðu þjóðanna ýmist frá Afríku eða af afrísku bergi brotnir, hafa birt sameiginlega kjallargrein þar sem þeir lýsa andúð sinni á djúpstæðu og kerfislægu kynþáttahatri. Þeir segja að ekki sé lengur hægt að láta sér nægja fordæmingu.

Á meðal þeirra sem undirrita greinina eru yfirmenn stofnana á vegum Sameinuðu þjóðanna á borð við Tedros Ghebreyesus, forstjóra Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), Phumzile Mlambo-Ngcuka, forstjóra Jafnréttisstofnunar SÞ (UN Women), Winnia Byanyima, yfirmann Alnæmisstofnunarinnar (UNAIDS) og Natalia Kanem forstjóra Mannfjöldastofnunarinnar (UNFPA).

Mótmæli svartra embættismanna SÞ
Háttsettir embættismenn af afrísku þjóðerni eða uppruna mótmæla ofbeldi lögreglu og kynþáttahyggju. Mynd: UN Photo/Evan Schneider

Dauði George Floyd

„Mótmæli hafa verið síðustu vikur vegna dauða George Floyd í haldi lögreglunnar. Við höfum andúð á óréttlæti kynþáttahyggjunnar sem þrífst í Bandaríkjunum og um allan heim. Óréttlæti kynþáttahyggjunnar á sér aldalanga sögu og það er ekki nóg að láta við það sitja að fordæma orð og verk hennar. Við verðum að ganga lengra”, segja embættismennirnir háttsettu. Þeir eru allir framkvæmdastjórar (Under Secretary-Generals) að tign, en skrifa greinina í eigin nafni.

„Morðið á hr. George Floyd og vígorðið „Svört líf skipta máli“ snýst um meira slagorð. Ekki eingöngu skipta lífin máli, heldur felur þetta í sér kjarna sameiginlegrar mannlegrar reisnar okkar. Við skuldum öllum fórnarlömbum kynþáttalegrar mismununar að láta verkin en ekki einungis orðin tala.“

„Raunar byggja Sameinuðu þjóðirnar á þeirri sannfæringu að allar mannlegar verur séu jafnar og að þeim beri réttur til að lifa án ótta við ofsóknar.“

Embættismennirnir háttsettu benda á að Sameinuðu þjóðirnar hafi í sögu sinni skipt sköpum. Þeir benda til dæmis á undirritun Alþjóðlegs sáttmála um útrýmingu hvers kyns kynþáttalegrar mismununar (1969) og baráttuna sem samtökin tóku þátt í og leiddu til hruns kynþattaaðskilnaðar í Suður-Afríku.

„Mannréttindi og reisn svartra í Afríku og annars staðar i heiminum var skýrt dæmi um að Sameinuðu þjóðirnar myndu ekki leyfa óréttlæti og hleypidómum að þrífast í skjóli óréttlátra laga. Nú, ber Sameinuðu þjóðunum á sama hátt að nota áhrif sín og siðferðilegt vald sem stofnunar til að hafa áhrif á breytingar á heimsvísu. Það er grundvallaratriði að binda enda á kynþáttalega mismunun til þess að hrinda Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun í framkvæmd og koma á friði,” skrifa embættismennirnir tuttugu í grein sinni.

Umræða í Mannréttindaráði

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt að efna til umræðu í þessari viku um „kynþáttahyggju og ofbeldi lögreglu“ að beiðni allra fimmtíu og fjögurra ríkja Afríku.

Áður hafði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna gefið út yfirlýsingu.

„Það er kominn tími fyrir Sameinuðu þjóðirnar að sækja i sig veðrið og grípa til ákveðinna aðgerða til að uppræta kerfibundna mismunun gegn fólki af afrískum uppruna og öðrum minnihlutahópum. Hið andstyggilega dráp George Floyd á sér dýpri rætur í málefnum og samfélagsgerð sem munu ekki hverfa ef við tökumst ekki á við þær,“ sagði Guterres.

Sjá greinina í heild:  https://news.un.org/en/story/2020/06/1066242