Að lifa af að verða móðir, eftir Ban Ki-moon

0
474

Að lifa af að verða móðir

 

-eftir Ban Ki-moon 

Höfundur er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

 

————————– 

Mæðradagurinn er haldinn hátíðlegur víða um heim. Börn á öllum aldri gefa blóm, búa til morgunmat handa mömmu eða hringja heim.

 Alveg eins og það á að vera. Á ferðalögum mínum um allan heim, hef ég sannfærst æ meir um það, að það eru mæðurnar sem halda fjölskyldum saman, og raunar heilu samfélögunum. Konur eru lím samfélagsins og hreyfiafl heimsins. Engu að síður bregst heimurinn mæðrum allt of oft. 

 En þótt haldið sé upp á mæðradaginn er það því miður svo, að margar konur hafa fyllstu ástæðu til að óttast afleiðingar þess að verða móðir.

 Sú var raunin með Leonora Pocaterrazas, tuttugu og eins árs gamla konu sem lést af barnsförum nýlega í fjallaþorpinu Columpapa Grande í Bólivíu, frá eiginmanni og þremur börnum.

 Eða hin tvítuga Sarah Omega, en barn hennar fæddist andvana á sjúkrahúsi í Kenía. Hún lifði af alvarlega sár og var staðráðin í því að láta að sér kveða til þess að aðrar konur þyrftu ekki að þola sömu eldraun. “Líf mitt missti tilgang sinn,” sagði hún við bandaríska þingmenn árið 2008. Frásögn hennar skipti verulegu máli þegar Bandaríkjaþing samþykkti aukin framlög af þróunarfé til að bæta heilsufar mæðra í heiminum.

 Þetta eru aðeins tvær sögur innan um þær hrikalegu tölur sem Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna (United Nations’ Population Fund) birtir á hverju ári. Þær tölur sýna að ginnungagap er á milli ríkra landa og fátækra þegar heilsa mæðra er annars vegar. Sameinuðu þjóðirnar eru staðráðnar í að brúa þetta bil.

 Þegar kona deyr af barnsförum í ríkum löndum, er gengið útfrá því sem vísu að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Í þróunarríkjum er það hins vegar talið gangur lífsins að kona lifi ekki af fæðingu barns. Í sumum löndum deyr áttunda hver konu við að fæða barn. Þungun og fæðing eru helsta dánarorsök stúlkna á aldrinum 15 til 19 ára í heiminum.

 Í fátækum ríkjum verða ófrískar konur oft að sjá alveg um sig sjálfar; þar er engri heilsugæslu til að dreifa og þær eiga ekki í neitt skjól að leita. Þær eiga oft í vandræðum með að næra sig sómasamlega og vinna langan vinnudag í verksmiðjum eða úti á ökrum, þar til þær eru komnar á steypirinn. Þær fæða oftast heima, og njóta í mesta lagi aðstoðar ófaglærðrar ljósmóður.

 Ég fæddist sjálfur í heimahúsi í litlu þorpi úti í sveit í Kóreu. Ein af æskuminningum mínum er að hafa spurt móður mina hvers vegna konur sem voru í þann veginn að fara að fæða barn, störðu á skóna sína.

 Móðir mín svaraði því til að konurnar veltu því fyrir sér hvort þær myndu nokkru sinni klæðast þessum skóm á ný. Konur vissu að þær voru hreinlega í lífshættu við að fæða barn. Sem dæmi má nefna að fyrir aðeins hundrað árum síðan var hundrað sinnum meiri hætta á að kona létist af barnsförum en í dag. 

 Við vitum hvernig hægt er að bjarga lífi mæðra. Einfaldar blóðprufur, mæðraskoðun og lágmarkshjálp fagfólks við fæðingu skipta sköpum. Ef bætt er við einföldum fúkkalyfjum, blóðgjöf og öruggum aðstæðum, eru verðandi mæður nánast ekki lengur í neinni lífshættu.

 Nýlegar tölur sýna að framþróun hefur orðið í heiminum. En það er enn langt í land. Á hverju ári deyja hundruð þúsunda kvenna af barnsförum; 99% þeirra í þróunarríkjum.

 Af þessum sökum hef ég sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna talað máli mæðra og ófrískra kvenna við hvert tækifæri. Í síðasta mánuði hleyptu Sameinuðu þjóðirnar af stokkunum aðgerðaáætlun í samvinnu við ríkisstjórnir, fyrirtæki, sjóði og frjáls félagasamtök til að vinna þessu máli lið. Ég treysti á stuðning almennra borgara um allan heim til að vinna bug á þessum hneykslanlega vanda sem þagað er um þunnu hjóði.

 Engin kona ætti að gjalda fyrir það með lífi sínu að gefa líf. Við skulum heiðra mæður um allan heima á Mæðradaginn með því að heita því að það verði hættulaust að verða móðir. 

 Höfundarréttur: Project Syndicate, 2010.

www.project-syndicate.org Greinin birtist á Mæðradaginn 9. maí 2010 í Morgunblaðinu.