Aðild Suður Súdans samþykkt

0
487
Sudan_aiild

Sudan_aiildAllsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt að veita Lýðveldinu Suður Súdan aðild að samtökunum og boðið landið velkomið í samfélag þjóða. Suður Súdan er 193. aðildarríki Sameinuðu þjóðanna.

Stjórnarerindreki stígur dansspor af fögnuði þegar fáni Suður Súdans var dreginn að hún við höfuðstöðvar SÞ í New York.

Suður Súdan varð sjálfstætt fyrir skemmstu í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í janúar á þessu ári sem haldin var í samræmi við friðarsamkomulag sem gert var árið 2005 en það batt enda á áratugalangt borgarastríð á milli norður og suðurhluta Súdans.

“’A þessum stað og á þessari stundu eru þjóðir heimsins saman komnar til að segja: Suður Súdan, vertu velkomin,” sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þegar Allsherjarþingið hafði samþykkt ályktun um aðild Suður Súdans með lófataki.

Ban var á meðal tiginna gesta sem sóttu sjálfstæðishátíðina í Juba, höfuðstað Suður Súdans á laugardag. Þar hét hann liðsinni samtakanna við að koma lýðveldinu á legg. “Stuðningur aðildarríkjanna verður þungur á metunum þegar Suður Súdan stígur sín fyrstu skref,” sagði hann.

Riek Machar, varaforseti tók til máls fyrir hönd Suður Súdans og kvaðst vera í senn stoltur og auðmjúkur þar sem hann stæði frammi fyrir aðildarríkjunum til að tjá þakklæti ríkisstjórnar og íbúa lands síns. Hann heiðraði alla þá sem lagt hafa hönd á plóginn til að tryggja sjálfstæði Suður Súdan. “Baráttan hefur kostað milljónir mannslífa og ósegjanlegar þjáningar. Þessar fórnir munu ekki gleymast.”