Stórfelld hækkun í dag, niðurskurður á morgun

0
444

Iceland development

Alþingi Íslendinga samþykkti skömmu fyrir jól að lækka verulega framlög til þróunaraðstoðar, innan við ári eftir að lögjafarsamkoman samþykkti nær samhljóða að auka hana verulega.

Alþingi samþykkti áætlun í febrúar sama ár um að auka þróunaraðstoð úr 0.26% af þjóðartekjum í 0.28% árið 2014 og ná 0.7% takmarki Sameinuðu þjóðanna fyrir 2019. Þess í stað lækka framlög Íslands og verða aðeins 0.23% á þessu ári. Þetta er miklu minna en hjá norrænu nágrannaríkjunum, en hlutfallið hjá skandinavísku ríkjunum þremur er um 1% og 0.6% í Finnlandi og hefur ýmist staðið í stað eða verið hækkað að undanförnu.

Framlög voru raunar óbreytt þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram í haust og hafði því þegar verið horfið frá því að standa við samþykktina frá í febrúar. Hins vegar ákvað fjárlaganefnd með Vigdísi Hauksdóttur, eina þingmanninn sem ekki samþykkti febrúar-áætlunina, í broddi fylkingar að leggja til verulega lækkun framlaga og eyrnamerkja það fé heilbrigðisgeiranum. Þetta þýddi 35% lækkun framlaga til þróunarsamvinnu.

„Þetta var ekki rætt í kosningabaráttunni, utan að um þetta heyrðust raddir úr hinum pópúlíska armi Framsóknarflokksins – semsé frá Vigdísi Hauksdóttur. Það er líka ljóst að niðurskurður á þróunaraðstoð skaðar ekki fylgi stjórnarflokkanna, nema síður sé,“ segir Egill Helgason, stjórnmálaskýrandi í viðtali við Fréttabréfið.

Viðbrögð í fjölmiðlum við tillögum fjárlaganefndar, ekki síst á samskiptamiðlum, voru einstaklega hörð. Gagnrýnendur bentu á að þær upphæðir sem hér var um að ræða, væru umtalsvert lægri en skattalækkanir á hina ábatasömu útgerð. Þær upphæðir sem ríkissjóður missti þar af hefðu ekki aðeins dugað til að bæta upp niðurskurðinn, heldur getað greitt alla þróunaraðstoðina. Raunar voru arðgreiðslur frá íslenskri útgerð vegna veiða við strendur þróunarríkja í Afríku hærri en sem nam árlegri þróunaraðstoð Íslendinga, að því er fram kemur í úttekt DV. 

Verðlaunarithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson Jsagði niðurskurðinn kuldalegan og grimmilegan og bæri vott um „háskalegan skort á sæmdartilfinningu“.

„Margir þingmenn stjórnarflokkanna eru ungir, og þeir eiga ung börn. Geta þeir samþykkt tillögu Bjarna Benediktssonar, farið síðan heim, horft kinnroðalaust í augu barna sinna – vitandi það að þeir hafi verið að samþykkja ef ekki dauðadóm yfir börnum í fjarlægum löndum, þá þverrandi möguleika þeirra að eignast mannsæmandi líf?,“ skrifaði Jón Kalman í grein í Fréttablaðið. 

Viðbrögðin, meðal annars andstaða utanríkisráðherrans Gunnars Braga Sveinssonar, urðu til þess að þriðungi þeirrar upphæðar sem fjárlaganefndin vildi skera niður, var skilað.

„Þau sjö ár sem ég hef fylgst náið með umræðu um alþjóðlega þróunarsamvinnu á Íslandi man ég ekki eftir öðrum eins viðbrögðum,“ segir Gunnar Salvarsson, útgáfu- og kynningarsjóri Þróunarsamvinnustofnunar í viðtali við Fréttabréfið. „Það var sláandi hversu jákvæðir Íslendingar voru almennt í garð þróunarsamvinnu. Kemur í sjálfu sér ekki á óvart miðað við niðurstöðu könnunarinnar sem birt var á haustdögum um mikinn stuðning þjóðarinnar við málaflokkinn.“

Samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í október 2013 eru meir en 90% Íslendingar sammála því að þróunaraðstoð verði óbreytt eða hún aukin.

Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi benti á að Íslendingar hefðu þegið meira fé í þróunaraðstoð en þeir hefðu veitt. Munar þar mestu um Marshall-aðstoðina sem Ísland fékk þótt landið hefði ekki beðið skaða í síðari heimsstyrjöldinni. Hún rannt til ýmissa framkvæmda og munar þar ekki minnst um virkjanir. Ísland fékk meira að segja stuðning frá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna allt til 1975.

„Á þessu herrans ári, 2013, höfum við sem sagt loksins gefið meira en við höfum þegið! Það er fallegt!“, skrifaði Stefán Ingi.