Af-því-bara

0
442

þróun

17. september 2012. Ingunn Sædal, ljóðskáld og þýðandi birtir athyglisverða grein í Fréttablaðinu þar sem hún fjallar um breytingar á heimsmynd Íslendinga á liðnum áratugum og þá skyldu okkar sem búum við forréttindi, að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að jafna ójöfnuðinn í heiminum.

„Af-því-bara“
 eftir Ingunni Sædal

Þegar ég var lítil stúlka á Jökuldalnum hafði ég aldrei séð neinn af öðrum kynþætti en ég var sjálf. Ég gekk í skóla með frændum mínum og frænkum, við áttum sama bakgrunn, sömu menningu, sömu hefðir, sömu sögu. Útlönd voru langt í burtu og allt öðruvísi. Við lærðum um börn í Tansaníu í litríkum samfélagsfræðibókum, þau voru álíka framandi og verur frá öðrum hnöttum. Engu að síður var ég alin upp við þá hugmynd að allt fólk væri jafn dýrmætt. Allir ættu rétt.

Þrjátíu árum síðar hefur orðið alger umbylting í heiminum. Tengsl milli þjóða verða sífellt nánari, landamæri mást út með auknum samskiptum, viðskiptum, netvæðingu og ferðalögum. Svöngu börnin í Afríku eru komin miklu nær en áður. Ég get horft á þau upplifa náttúruhörmungar í beinni útsendingu með vefmyndavél. Hinn himinhrópandi munur á lífskjörum jarðarbúa hefur aldrei verið jafn áþreifanlegur.

Við Vestur-Evrópubúar erum algert forréttindafólk. Vegna þess að við fæddumst hér höfum við aðgang að fyrsta flokks menntakerfi, heilbrigðiskerfi, hreinu vatni og gnægðum matvæla. Alltof miklum matvælum ef út í það er farið. Við höfum ekki gert neitt til að verðskulda þetta, svona er þetta bara. Aðrir eru ekki jafn lánsamir.

Ég nem staðar á götu ef ég sé grátandi barn, og spyr það hvað ami að, reyni að greiða úr fyrir því. Það er skylda mín sem manneskju að láta mig heill og hamingju annarra varða. En börnin sem eru hjálpar þurfi verða ekki öll á vegi mínum dagsdaglega. Þau sem ég sé ekki eru samt alveg jafn mikilvæg. Þau þurfa jafnvel meira á hjálp að halda. Við sem búum við forréttindin, sem við fengum ?af-því-bara?, erum best í stakk búin til að hjálpa öðrum. Við erum rík, við erum heilbrigð, við erum aflögufær. Þegar upp er staðið er það merkilegasta af öllu að láta gott af sér leiða.

http://www.visir.is/-af-thvi-bara–/article/2012709179979