Ákall um vopnahlé í heiminum

0
782
Guterres
Antonío Guterres aðalframkvæmastjóri Sameinuðu þjóðanna

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann skorar á allar stríðandi fylkingar um víða veröld tl að slíðra sverðin og beina sjónum sínum þess í stað að því að berjast gegn COVID-19 – kórónaveirunni.

Ákall um vopnahlé í heiminum

-eftir António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Heimur okkar stendur andspænis sameiginlegum óvini: COVID-19.

Veiran kærir sig kollótta um þjóðerni, kynþátt, flokk eða trú. Hún ræðst án afláts jafnt á alla.

Á sama tíma geisa styrjaldir um allan heim.

Þeir sem síst skyldi verða harðast úti; konur og börn, fatlað fólk, fólk á jaðri samfélagsins og uppflosnað fólk.

Mestu líkur eru á að þessir sömu hópar líði fyrir COVID-19.

Gleymum því ekki að heilbrigðiskerfi hafa hrunið í stríðshrjáðum löndum.

Alltof fáliðaðar heilbrigðisstéttir hafa oft og tíðum verið skotmörk.

Flóttamenn og annað uppflosnað fólk af völdum ofbeldis og átaka eru enn berk-skjaldaðari en ella.

Ofsi veirunnar minnir okkur á vitfirringu stríðs.

Af þessum sökum hvet ég til tafarlauss vopnahlés um víða veröld.

Það er kominn tími til að stöðva vopnuð átök og beina sjónum okkar að hinni sönnu orustu lífs okkar.

Stríðandi fylkingum segi ég:

Slíðrið sverðin.

Setjið til hliðar vantraust og fjandskap.

Látið byssurnar þagna, stöðvið stórskotaliðið, látið af loftárásum.

Þetta er þýðingarmikið…

Til þess að skapa svigrúm til að koma hjálpargögnum sem bjarga mannslífum til skila.

Til að skapa svigrúm fyrir diplómatískar lausnir.

Til að vekja von á þeim stöðum sem eru hvað berskjaldaðastir fyrir COVID-19.

Við getum sótt innblásturs til bandalaga og viðræðna sem hægt og bítandi eru að hefjast á milli andstæðinga til þess að greiða fyrir sameiginlegum viðbrögðum við COVID-19. En við þurfum miklu meira.

Bindum enda sjúkleg stríðsátök og berjumst við sjúkdóminn sem herjar á heiminn.

Byrjum á því að stöðva bardaga hvarvetna. Nú þegar.

Þetta er það sem fjölskylda mannkyns þarf á að halda, nú meir en nokkru sinni fyrr.