Alnæmi þrífst enn í skugga annars heimsfaraldurs

0
284
Mynd: sergey mikheev/ Unsplash

680 þúsund manns létust úr alnæmis-tengdum sjúkdómum í heiminum á síðasta ári. Þetta er nærri tvöfaldur íbúafjöldi Íslands. 1.5 milljón ný HIV tilfelli voru skráð 2020. Tala þeirra sem búa við HIV smit er 37.7 milljón eða álíka og íbúafjöldi Póllands. Í dag, 1.desember, er Alþjóðlegi alnæmisdagurinn.

Alnæmisdagurinn 40 ár eru nú liðin frá því fyrstu HIV smituðu sjúklingar komust undir læknishendur og frá fyrstu dauðsföllunum. Þetta er alvarlegur og lífshættulegur sjúkdómur, þróist sjúkdómurinn án meðferðar. Síðasta og banvænasta stigið er nefnt alnæmi. Lyf hafa nú verið fáanleg um nokkurt árabil sem draga úr fjölgun veirunnar í líkama hins sýkta. Þau bæta líðan hans mjög og lengja líf þeirra sem greinst hafa HIV-smitaðir.

HIV/Alnæmi er ekki lengur sá vágestur sem hann var áður en lyf voru þróuð. HIV smitaðir mættu gríðarlegum fordómum eins og lesa má um á heimasíðu HIV Ísland-samtakanna.

Undirbjó jarðarförina fyrir 29 árum

Ingi Rafn Hauksson fyrrverandi formaður Alnæmissamtkanna segir í viðtali við vefsíðu HIV Ísland, að þótt hann hafi sjálfur verið meðvitaður um sjúkdóminn hafi það samt verið mikið sjokk að fá þá niðurstöðu í símtali að hann væri smitaður. „Þá var heldur engin aðstoð veitt, ekkert til að halda utan um mann; áfallahjálp.“

Samleigjandi hans lést úr alnæmi og honum var sagt að hann ætti 6-8 ár eftir. „Það var sárt og að hugsa að ég gæti ekki horft á dóttur mína vaxa úr grasi. Ég reiknaði einnig út að ég myndi ekki kynnast því að eignast barnabarn,“ segir Ingi Rafn.

Það segir sína sögu um þann árangur sem náðst hefur að Ingi Rafn, sem nú er afi þriggja barnabarna, hefur lifað með HIV í 29 ár.

Á sínum tíma var hann hins vegar farinn að undirbúa eigin jarðarför.

„Þegar mamma var jörðuð bað ég pabba, sem vildi leiði við hlið mömmu, um að fá að vera á milli þeirra. Það eru því tvö stæði laus við hliðina á henni.“

Fimmti hver heldur að HIV smitist við koss

Nú er farið að fenna yfir vitund fólks um HIV. Í nýlegri könnun bresku alnæmissamtakanna kváðust 63% svarenda ekki minnast þess að hafa heyrt eða séð minnst á HIV undanfarna sex mánuði.  Í annari könnun taldi fimmti hver að hægt væri að smitast af HIV með kossi. Hið rétta er, eins og vonandi flestir vita, að HIV smitast manna á milli með blóði, sæði, leghálsslími og brjóstamjólk.

Winnie Byanyima forstjóri UNAIDS, Alnæmisstofnunar Sameinuðu þjóðanna bendir á að sá árangur sem náðst hafi megi þakka samvinnu. „Alnæmis-tengd dauðsföll eru orðin sjaldséð þar sem leiðtogum hefur auðnast að vinna saman með djörfum hætti, nýtt nýjustu tækni og vísindi, og boðið upp á þjónustu sem mætir öllum þörfum fólks. Jafnframt gætt að því að virða mannréttindi og séð fyrir fjármagni.“

Alnæmisdagurinn
Winnie Byanyima forstjóri UNAIDS, Alnæmisstofnunar Sameinuðu þjóðanna

Byanyima minnir hins vegar á að það kunni að reynast torsótt að ná því settu marki sem samþykkt var í Heismarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, að útrýma HIV/ alnæmi fyrir 2030.

„Framþróunin hvað AIDS varðar var ekki lengur á áætlun og nú hefur álagið aukist vegna COVID-19. HIV forvarnir og meðferð hafa beðið hnekki,“ segir Byanyima í ávarpi á Alnæmisdeginum 2021.

Ójöfnuður

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tekur í sama streng.

„Á Alþjóðlega alnæmisdeginum beinum við sjónum okkar að þeim ójöfnuði sem knýr áfram HIV og alnæmi,“ segir Guterres í ávarpi sínum. „Það er enn hægt að binda enda á faraldurinn fyrir 2030. En til þess þarf að gyrða sig í brók og efla samstöðu. Til að sigrast á alnæmi þarf sameiginlegar aðgerðir. Þar á meðal þarf að fylkja liði til að hrinda breytingum i framkvæmd, vinna á fórdómum og útrýma löggöf, stefnumótun og starfsháttum sem fela í sér mismunun og refsingar.“

Spurningar og svör  landlæknisembættisins um HIV/Alnæmi:

Smitar HIV í daglegri umgengni?
HIV smitar ekki í daglegri umgengni. Algjörlega hættulaust er því að búa á sama heimili eða vera í daglegu samneyti við þann sem er smitaður af HIV/alnæmi.

Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?
Smokkurinn er EINA vörnin gegn smiti. Til þess að hann veiti hámarksvörn verður að nota hann rétt. Sprautufíklar skulu gæta þess að deila aldrei sprautum eða sprautunálum með öðrum.

Er HIV hættulegur sjúkdómur?
HIV er alvarlegur og lífshættulegur sjúkdómur, þróist sjúkdómurinn án meðferðar. Engin lækning er til við honum og hún er heldur ekki í augsýn.

Hver eru einkenni HIV og hvenær koma þau í ljós?
Hluti nýsmitaðra fá einkenni fáeinum dögum eða vikum eftir smit. Helstu einkennin eru almennur slappleiki, hálssærindi, eitlastækkanir, útbrot, höfuðverkur og vöðva- og liðverkir sem ganga oftast yfir á 1–2 vikum. Eftir það eru flestir einkennalausir í mörg ár, en veiran vinnur smám saman á vörnum líkamans og skemmir ónæmiskerfið.

Hvað er alnæmi?
Alnæmi er lokastig sjúkdómsins og vísar orðið til sjúkdóma og einkenna sem HIV-jákvæðir fá þegar ónæmiskerfið fer að bresta. Þetta gerist oftast mörgum árum eftir smit. Þegar fólk er komið með alnæmi fær það sjúkdóma sem ósmitað fólk fær sjaldan, þar sem ónæmiskerfi þeirra hefur misst getuna til að berjast við sjúkdóma. Sá sem er kominn með alnæmi deyr oftast innan fárra ára, sé ekki beitt lyfjameðferð, en hún bætir horfurnar verulega.

Hvernig er hægt að greina HIV/alnæmi?
HIV-smit er greint með blóðprufu sem hægt er að taka hjá hvaða lækni sem er. Blóðprufan er ókeypis og farið er með hana í trúnaði. Þegar HIV kemst inn í blóðið þróar líkaminn mótefni sem hægt er að finna með HIV-mótefnamælingu allt að þremur mánuðum eftir smit. Jákvætt HIV-próf þýðir að það hafa fundist mótefni gegn HIV í blóðinu og að þú sért því HIV-smitaður. Neikvætt HIV-próf þýðir aftur á móti að þú sért ekki smitaður af HIV. Niðurstöður HIV-prófs fást nokkrum dögum eftir að blóðprufa er tekin.

Er hægt að fá meðferð við HIV/alnæmi?
Dagleg inntaka HIV-lyfja það sem eftir er ævinnar getur dregið úr fjölgun veirunnar í líkamanum og þar með bætt líðan og lengt líf HIV-jákvæðra. Lyfjatökunni geta fylgt aukaverkanir.

Hvað með þá sem ég hef sofið hjá?
Hafir þú sofið hjá einhverjum frá því þú smitaðist, getur verið að einhver þeirra hafi smitast af HIV. Því er mikilvægt að fyrri bólfélagar séu látnir vita. Þú getur sjálf/sjálfur látið þá vita eða þú getur beðið lækninn um að skrifa þeim án þess að nafn þíns sé getið. Í öllum tilvikum er þó skylt að gefa upplýsingar um bólfélaga. Með því að hvetja þá sem þú hefur sofið hjá til að fara í skoðun getur þú komið í veg fyrir að þeir smiti þá sem þeir sofa hjá í framtíðinni. Þannig getur þú komið í veg fyrir útbreiðslu þessa alvarlega sjúkdóms.