Alsír: undantekningin sem sannar regluna

0
488

Algeria

26.júní 2014. Alsír er ekki oft í fréttum og alls ekki jafn oft og Rússland andstæðingur landsins á HM í fótbolta í dag.
Alsír er engu að síður eitt af stærstu ríkjum heims og stærsta land Afríku. En hvað vitið þið meira um landið?
Hér eru nokkrir punktar. Arabaheimurinn fór á annan endann í lok 2010 þegar Túnisbúinn Múhameð Bouazizi kveikti í sér. Hann var tuttugu og sex ára gamall og þótt hann hefði háskólamenntunn fékk hann ekkert starf og aflaði sér lífsviðurværis með því að selja grænmeti í Sidi-Bouzid í Túnis. Allt þar til lögreglan gerði grænmetisstandinn hans upptækan og Bouazizi varð örvinglaður.

Bouazizi lést af brunasárunum og nafn hans var á allra vörum næstu mánuði. Dauði hans ýtti af stað svokallaðri Jasmín byltingu í Túnis og forseti landsins Zine El Abidine Ben Ali hrökklaðist frá völdum. Mótmæli breiddust út um allan Arabaheiminn, til Egyptalands, Líbýu og Sýrlands.

En þótt mótmælin breiddust líka út til Alsírs urðu þau aldrei jafn umfangsmikil þar og í flestum Arabaríkjum.
Skýringanna er að leita í sögunni. Alsír var frönsk nýlenda í 132 ár. Landið braust til sjálfstæðis eftir blóðugt borgarastríð árið 1962. Alsír varð í kjölfarið einsflokksríki, stjórnað af FLN (Front de Libération Nationale) en starfsemi stjórnmálaflokka var leyfði eftir mótmæli í lok níunda áratugarins. Boðað var til kosninga en eftir að svokallaðir Íslamistar unnu fyrri umferð þingkosninga greip herinn inn í og við tók blóðugt borgarastríð sem kostaði 150 þúsund manns lífið.
Síðan hafa efnahagserfiðleikar herjað á landið með miklu atvinnuleysi, ógagnsæju ríkiskerfi, spillingu og lélegum lífskjörum. Því má spyrja af hverju sigldu Alsíringar ekki í kjölfar annara Araba og steyptu stjórninni?

Rasmus Alenius Boserup, sérfræðingur í arabískum fræðum og stjórnmálum við Dönsku alþjóðamálastofnunina (DIIS) segir ástæðuna þá að mótmælaalda af þessu tagi hafi þegar riðið yfir Alsír og að árið 1988 hafi verið knúin fram breyting á stjórnarskránni sem leiddi til þess að stjórnarandstöðu Íslamista var leyft að starfa. Rétt eins og í Egyptalandi nú, unnu svo Íslamistarnir kosningarnar í kjölfarið. Í Alsír endaði þetta ferli í blóðugu borgarastríði og landið hefur enn ekki náð sér að fullu. Að sögn Boserup er þetta ástæðan fyrir þvi að “þótt fólk sé verulega óánægt, dreymir fáa um skjótar pólitískar breytignar til hins betra.”

Nýlegar voru haldnar kosningar í Alsír og fylgdust sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna með framkvæmd þeirra. Abdelaziz Bouteflika, sem verið hefur forseti frá 1999, vann í fjórða skipti og er nú sá forseti sem lengst hefur verið við völd í landinu. Hann fékk hjartaáfall 2013 og hefur sjaldan sést opinberlega síðan þá. Sigur hans var þó ekki óumdeildur, þó hann væri “ótvíræður”, því hann hefur oft verið sakaður um kosningasvindl og hagræða lögum til tryggja völd sín.

Tæpast verða svo skjót umskipti í Alsír í nánustu framtíð eins og orðið hafa í nágrannaríkjunum. Íbúarnir eru mun varkárari þegar mótmæli og byltingar eru annars vegar en nágrannarnir vegna fyrri reynslu. Samt er ljóst að flesta Alsíringa dreymir um breytingar í átt til aukins lýðræðis, fleiri störf og meiri möguleika. Rasmus Alenius Boserup segir að samt geti breytingar orðið til batnaðar í landinu. “Vonin um breytingar „changement“ stendur djúpum rótum, en breytingar verða að vera mjúkar og einkennast af varkárni, en það er mikill vilji til breytinga.”