Alþjóðaglæpadómstóllinn tilkynnir um fyrstu einstaklinga sem grunaðir eru um stríðsglæpi í Darfur

0
535

 27. febrúar 2007 – Aðalsaksóknari Alþjóðastríðsglæpadómstólsins (International Criminal Court (ICC)) tilkynnti í dag að hann hygðist stefna súdönskum ráðherra og herforingja fyrir dómstólinn.

Þetta eru fyrstu menn sem dómstóllinn nefnir sem grunaða um stríðsglæpi og glæpi gegn í hinu stríðshrjáða Darfur héraði.
Öryggisráðið vísaði Darfur málinu ásamt nöfnum fimmtíu og eins grunaðs einstaklings til Alþjóðastríðsglæpadómstólsins í mars 2005. Í rannsókn Sameinuðu þjóðanna á því hvort þjóðarmorð ætti sér stað í Darfur var komist að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórn Súdans bæri ábyrgð á glæpum sem brytu í bága við alþjóðalög og mælt var með því að vísa málinu til dómstólsins.
Luis Moreno-Ocampo, aðalsaksóknari dómstólsins kynnti gögn sem benda til þess að Ahmad Múhameð Harun, fyrrverandi innanríkisráðherra Súdans og Ali Kushayb, leiðtogi svokallaðra Janjaweed vígasveita “bæru sameiginlega ábyrgð á glæpum gegn óbreyttum borgurum í Darfur”, samkvæmt fréttatilkynningu ICC
Glæpirnir voru framdir í árásum á þorpin og bæina Kodoom, Bindisi, Mukjar og Arawala í vesturhluta Darfur frá ágúst 2003 til mars 2004
Harun var skipaður snemma árs 2003 yfirmaður öryggismála í Darfur og bar ábyrgð á því að stýra, vopna og ráða vígamenn í Janjaweed sveitirnar sem um síðir töldu tugir þúsunda manna. Hann er nú ráðherra mannúðarmála í Súdan.
Að sögn dómstólsins sagði Harun á opinberum fundi að sem yfirmaður öryggismála í Darfur hefði hann “öll völd og heimildir til að ráða því hver yrði drepinn og hverjum þyrmt í Darfur, í nafni friðar og öryggis.”
Kushayb, var hins vegar herforingi í vestur-Darfur og stýrði þúsundum Janjaweed-vígamanna um miðjan mars 2003. Samkvæmt gögnum saksóknarans gaf hann skipanir jafnt til vígasveitanna og stjórnarhersins um að ráðast að óbreyttum borgurum og beita hópnauðgunum og öðrum kynferðisbrotum, morðum, pyntingum, ómannúðlegum gjörðum, stunda rán og gripdeildir á heimilum og mörkuðum, reka fólk að heiman og fremja ýmsa aðra glæpi.
Dómarar Alþjóðastríðsglæpadómstólsins munu nú fara í saumana á sönnunargögnum og ákveða hvort þessir tveir grunuðu einstaklingar skuli leiddir fyrir réttinn og ef svo er, hvernig farið verði að því.
Meir en 200 þúsund hafa verið drepnir og að minnsta kosti tvær milljónir flæmdar frá heimilum sínum frá 2003. Um fjórar milljónir manna þurfa á mannúðaraðstoð að halda til að lifa af í Darfur sem er á stærð við Frakkland og er í vesturhluta Súdans.