Alþjóðasamfélagið má ekki gleyma Rohingjum

0
677
Rohingja-flóttamenn
Barn ber vatn í Cox´s Bazar flóttamannabúðunum í Bangladesh Mynd:. © UNICEF/Patrick Brown

Flóttamenn af Rohingja-kyni eru verr settir en nokkru sinni, þremur árum eftir að þeir hröktust frá heimkynnum sínum hundruð þúsundum saman.

Að sögn stofnana Sameinuðu þjóðanna sem vinna við að lina þrautir þeirra eru næstum allir flóttamennirnir háðir matargjöfum til að geta dregið fram lífið.

“Þar sem aðstoð Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) sleppir, fer framboð á matvælum í flóttamannabúðum minnkandi og verð hækkandi,” segir Elisabeth Byrs, talskona WFP.

Birgðaflutningar hafa truflast af völdum COVID-19 faraldursins og framboð á ferskum matvælum minnkað.

WFP hefur komið matvælaaðstoð til skila með því að að afhenda flóttamönnum rafrænar ávísanir og með þeim hætti náð til 88% nauðstaddra. Vegna faraldursins hafa áætlanir um að ná til þeirra allra raskast.

Þá hefur þurft að grípa til aðgerða til að draga úr smithættu á þeim stöðum þar sem 12% flóttamannanna fá afhent hrísgrjón, linsubaunir og olíu.

Byrs hvatti alþjóðasamfélagið til að halda áfram að styðja flóttafólkið ella gæti ástandið breyst til hins verra.

“Alþjóðasamfélagið má ekki snúa baki við Rohingjum,” sagði Byrs.

Ótti við COVID-19

Flóttamenn Rohingjar
Mynd: © UNICEF/Brown

Ástæða er til að óttast ef COVID-19 brýstu út í flóttamannabúðunum, ekki síst Cox´s Bazar í suðurhluta Bangladesh. Þar er þröngt á þingi og COVID-19 smit gæti valdið miklum skaða á skömmum tíma. Mörg hundruð þúsund manns búa á aðeins 13 ferkílómetra svæði og nánast óhugsandi að halda tveggja metra bili á milli fólks.

Auk þessa hafa stöðugar rigningar og ofsafengið veður aukið á vanlíðan hinna bágstöddu. 100 þusund flóttamenn hafa orðið fyrir barðinu á óvenjumiklum Monsún-rigningum í ár en skýli hafa skolast burt í flóðum og rigningum og sama gildir um uppskeru.