Alþjóðlegum stofnunum ber að efla einstaklinginn – eftir Srgjan Kerim, forseta Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna

0
494

Samskiptanet þróast gríðarlega hratt í okkar hnattvædda heimi hvort heldur sem er pólítisk bandalög, fyrirtæki, miðstöðvar viðskipta eða almannasamtök.  Alþjóðlegi stofnanaramminn hefur hins vegar tilhneigingu til að endurspegla gamla tíma þar sem valdapólitík réði ríkjum. Sú hugsun að ríkisvald eitt og sér sé lausnin á ekki lengur við á okkar tímum þar sem við glímum við málefni á borð við loftslagsbreytingar, hryðjuverk og sjálfbæra þróun. 

Srgjan Kerim frá Makedóníu, (fyrir miðju) er forseti sextugasta og annars Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Þessi grein birtist fyrst í Al -Hayat 9. apríl.

Við þurfum á nýrri tegund af alþjóðahyggju að halda. Hún ætti að miðast við nýtt þjóðfélag sem byggist á raunsæislegri trú á grundvallaratriði og sameiginlegri ábyrgð. Sífellt fleiri veraldarleiðtogar, fræðimenn og fólk af öllum stigum þjóðfélagsins, viðurkenna þessar staðreyndir.

Við þessu ætti ekki að bregðast með því að koma á “nýskipan” heimsins – til þess er hann alltof flókinn. Þess í stað þurfum við á nýju alþjóðlegu samskiptaformi að halda, nýrri hugsun um sameiginleg örlög okkar og sameiginlega ábyrgð. 

Þetta samskiptaform þarf að vera nægilega þjált og sveigjanlegt til að henta okkar síbreytilega heimi og hafa einstaklinginn í fyrirrúmi. Ýmis grundvallarsjónarmið þar sem nauðsynleg áhersla er lögð á einstaklinginn í stað ríkja og fullveldis hafa verið þróuð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. 

Í embætti mínu sem forseti Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna hef ég hvatt til nýrrar tegundar alþjóðasamskipta sem byggist á fullri virðingu fyrir mannréttindum, öryggi,mannsins, verndarskyldunni og sjálfbærri þróun. Þessi grundvallarsjónarmið fela svo í sér virðingu fyrir grundvallar frelsi, samstöðu, jafnrétti, virðingu, umburðarlyndi og sameiginlegri ábyrgð. 

Hnattvæðingin hefur grafið undan fullveldi

Leyfa verður þessu nýja samskiptaformi að taka sér bólfestu í vef alþjóðlegra stofnana. Hnattvæðingin hefur deilt og grafið undan fulllveldi einstakra ríkja. Þess í stað hafa orðið til ný hnattræn samskiptanet á kostnað þjóðríkja, svæðisbundin ríkjabandalög hafa tekið við keflinu en auk þess hafa einstaklingar öðlast aukinn rétt til frjálsra og fullvalda ákvarðanna. Hins vegar er núverandi stofnanarammi okkar of ósveigjanlegur og bundinn í viðjar alþjóðakerfis þar sem ríkisvaldið er í fyrirrúmi sem málsvari og aflvaki allra breytinga. 

Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa samþykkt ályktanir þar sem meiri áhersla er lögð á mannréttindi og öryggi einstaklinga, en það skortir á að þessi grundvallarsjónarmið séu virt í reynd, eins og sést alltof vel í Darfur.

Nauðsyn krefur að við endurmetum og hugsum að nýju til hvers við ætlumst af Sameinuðu þjóðunum,  Bretton Woods stofnunum og öðrum alþjóðlegum og svæðisbundnum samtökum. Þetta þurfum við að glíma við í náinni framtíð. 

Innan Sameinuðu þjóðanna er mest talað um umbætur á Öryggisráðinu en það er aðeins einn hluti þeirra umbóta sem nauðsynlegar eru til að umbreyta samtökunum. Sem formaður vinnuhóps um þetta málefni er ég sannfærður um að við umbætur á Öryggisráðinu nægir það ekki að hafa það eitt að markmiði að bæta við eða fækka aðildarríkjum. Við þurfum að  breyta aðferðum okkar við að glíma við hnattræn vandamál og alþjóðlegt neyðarástand. Ella erum við föst í úreltu stofnanafyrirkomulagi. 

Það má ekki vera markmið í sjálfu sér að breyta skipan öryggisráðsins en það er nauðsynlegt fyrsta skref. Nýtt alþjóðlegt samskiptaform er hluti af umbótum á ráðinu. Stefna ber að jafnvægi hagsmuna fremur en valdajafnvægi. Þeir sem sitja í ráðinu ættu að vera reiðubúnir að deila ábyrgð og vera fúsir og hæfir til að vernda líf fólks – þegar önnur ráð þrýtur- hver svo sem og hvar svo sem hættu ber að höndum. 

Grasrótarstarf skilar árangri

En nýtt form alþjóðlegra samskipta snýst ekki aðeins um hvernig ríkisvaldið er hugsað, beitt og skilið.  Ef völd eru flutt til einstaklinga krefst það einnig vaxandi þátttöku almennings.

Ef við lítum á alþjóðastjórnmál á okkar tímum sjáum við að þau snúast að mestu um að koma á reglu þar sem hagsmunir þjóðríkja eru æðri sameiginlegum hagsmunum allra einstaklinga. Það sem er að breytast er hins vegar að tækifærum einstaklinga til að hafa áhrif er að fjölga. Mikilvægur þáttur í þessu ferli er fjölgun almannasamtaka og virkra þátttakenda í borgaralegu samfélagi sem hafa áhrif á hvaða mál eru í brennidepli á alþjóðavettvangi. Þetta sýnir að grasrótarstarf einstaklinga hefur raunveruleg áhrif á alþjóðlega vísu. Þetta er góðs viti. 

Til grundvallar nýju formi alþjóðlegra samskipta ætti að vera það grundvallarsjónarmið að öll ríki, alþjóðlegar stofnanir, borgaralegt samfélag og almannasamtök ættu að vinna í sameiningu að því að hver einstaklingur hafi jafna möguleika á réttindum og tækifærum. 

Það er siðferðileg og stofnanabundin skylda okkar að endurskoða alþjóða samtök til að greiða fyrir þessum tækifærum. En það hvílir líka á herðum okkur einstaklinganna að grípa þessi tækifæri og gera alvöru úr þeim. Það ætti að vera í fyrirrúmi nýrra alþjóðlegra samskitpa að skapa ramma utan um eflingu einstaklinga. 

  Við þurfum að gæða stofnanir heimsins þessari nýju sýn ef þær eiga að duga á tuttugustu og fyrstu öldinni. 

Srgjan Kerim er forseti sextugasta og annars Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna