Alþingi geti fylgst betur með aðstoð

0
501

Þróun ber ávöxt2

20. september 2012. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins segir að aukin framlög til þróunaraðstoðar Íslands kalli á aukið aðhald Alþingis. Hann lýsir yfir stuðningi við markmið herferðarinnar “Þróunarsamvinna bera ávöxt – komum heiminum í lag” í grein sem hann skrifar í Fréttablaðið í dag.
“Varanlegar umbætur á umhverfi fólks er það sem stefna ber að eftir fremsta megni,” segir Bjarni í grein sinni. “Þótt sumum þyki markið sett nokkuð hátt, verður það samt sem áður að vera markmið okkar til langs tíma að koma heiminum í lag.”

Bjarni segir að aukin framlög til þróunarmál kalli á að Alþingi verði gert kleyft að setja sig betur inn í þau fjölmörgu álitamál sem upp koma á þessu sviði. “Það er brýnt að ríki, sem veita beina aðstoð, hafi eftirlit með því að hún skili raunverulegum árangri. Þau eiga jafnframt að þrýsta á nauðsynlegar lýðræðisumbætur á hverjum stað, en einskorða ekki framlag sitt við matargjafir eða heilbrigðisþjónustu.”

Bjarni rifjar einnig upp að hann hafi sjálfur haft tækifæri til að fylgjast með árangri af starfi Sameinuðu þjóðanna á vettvangi þegar hann heimsótti Nikaragva árið 2006 í hópi norrænna þingmanna.

“Ógleymanlegt var að heimsækja mæðraverndarstöð sem rekin var í samstarfi við heimamenn og sjá þakklæti mæðranna sem komu með börn sín í heilbrigðiseftirlit og þáðu matargjafir. Eins var mikilvægt að fá að sjá hversu miklu máli utanaðkomandi aðstoð skipti, þar sem fellibylur hafði nýlega lagt í rúst heimili og skóla en uppbygging var að hefjast með skipulögðum hætti.”

Mynd: Þróunarsamvinnustofnun