Alþjóðadagur Nelsons Mandela – vertu hvatning til breytinga

0
462

mandela cover english

18.júlí 2013 – Í dag á 95 ára afmælisdegi Nelsons Mandela erum við minnt á ótrúlega lífssögu manns sem hefur aldrei horfið frá hugsjónum sínum og helgaði líf sitt í 67 ár í þjónustu við mannkynið ásamt því að vera einn óumdeilanlegasti friðarsinni okkar tíma. Mannréttindi, uppræting óréttlætis og fyrirgefning voru alla tíð Mandela hugleikin. Í dag er tækifæri fyrir alla að fylgja fordæmi þessa mikilmennis og láta gott af sér leiða.

Á hverju ári á afmælisdegi Nelsons Mandela taka Sameinuðu þjóðirnar og Nelson Mandela sjóðurinn höndum saman og hvetja fólk til að gefa 67 mínútur af tíma sínum til að aðstoða þá sem minna mega sín og sýna þannig vilja í verki á táknrænan hátt með þátttöku í samfélagsþjónustu.

Skilaboð dagsins eru; Gríptu til aðgerða og hvettu til breytinga til hins betra fyrir mannkynið og jörðina í heild. Í dag gefst okkur tækifæri til að virkja alla, stóra sem smáa til að leggja sitt af mörkum við að byggja upp friðsælli, sjáfbærari og sanngjarnari veröld í anda Nelsons Mandela.

Um leið og við sendum árnaðaróskir til Mandela sem liggur á sjúkrahúsi á þessum degi, viljum við koma á framfæri bænum okkar og jákvæðum hugsunum fyrir Hr. Mandela, fjölskyldu hans og íbúa Suður-Afríku. Með aðdáun sameinumst við í dag í verkum í anda þessa mikla leiðtoga.