Alþjóðadagur bókarinnar á afmæli Laxness

0
442

Halldór Kiljan Laxness 195523. apríl 2012: Dagurinn 23. apríl var valinn sem Alþjóðlegur dagur bóka og höfundarréttar því þann dag létust margir af helstu rithöfundum bókmenntasögunnar og aðrir fæddust, þar á meðal Halldór Laxness.

Í frétt frá UNESCO segir að þennan dag árið 1616 hafi William Shakespeare, Miguel de Cervantes og perúski rithöfundurinn “El Inca” Garcilaso de la Vega allir dáið. Rithöfundarnir Vladimir Nabokov, Halldór Laxness, Josep Pla, Maurice Druon og Manuel Mejía Vallejo ýmist fæddust eða létust þennan dag.

Í ávarpi sínu í tilefni dagsins segir Irina Bokova, forstjóri UNESCO að bækur gegni þýðingarmiklu hlutverki til að miðla þekkingu og skilningi.

“Án jafns aðgangs að innihaldi hvort heldur sem prentaðra bóka eða rafrænna, dregur úr krafti bókarinnar og fjölbreytni minnkar.”
UNESCO leggur áherslu á mikilvægi þýðinga til að tryggja að allir hafi aðgang að hinu kyngimagnaða afli bóka.
UNESCO heldur til haga svokallaðri  Index Translationum, eða alheimsskrá þýðinga. Skráin sem nú er áttræð nær yfir allar útgefnar þýðingar.
Þar eru tvær milljónir færslna sem ná til 500 þúsund höfunda og 78 þúsund útgefenda. Þar má komast að því að Agatha Christie, Jules Verne og William Shakespeare eru mest þýddu höfundar heims, en mest er þýtt á frönsku, þýsku og spænsku.
 Yerevan, höfuðborg Armeníu er heimshöfuðborg bókarinnar árið 2012.