App í þágu flóttamanna

0
456
UNHCR app

UNHCR app

2.febrúar 2016. Nýr app fyrir snjallsíma auðveldar flóttamönnum að fóta sig á nýjum stað.

Áströlsk almannasamtök hafa látið hanna appinn með það fyrir augum að aðstoða flóttamenn við að koma sér fyrir og laga sig að nýju tungumáli, nýrri menningu og llifnaðarháttum. Slíkt er ekki heyglum hent fyrir venjulega innflytjendur en er enn erfiðara fyrir flóttamenn sem oft og tíðum hafa mátt þola mikið andlegt álag.

Appinn, sem er á persnesku (farsi), arabísku, tamíl og ensku, hefur að geyma upplýsingar um allt á milli himins og jarðar; frá líkamsrækt til atvinnuleitar. Einnig er að finna ráð til að sigrast á andlegum erfiðleikum og ráða fram úr fjárhagserfiðleikum og finna nauðsynlega þjónustu í Ástralíu.

Íraski skurðlæknirinn Munjed Muderis kom til Ástralíu sem flóttamaður og hefur verið talsmaður appsins.
„Ég þekki af eigin raun hversu mikið álag og erfiðleikar fylgja því að setjast að í nýju landi“ segir Muderis. „Nýi appinn getur stuðlað að andlegu og líkamlegu heilbrigði með því að hjálpa fólki að hreyfa sig og borða hollan mat.“

„Þessir hlutir gleymast þegar fyrstu skrefin eru stigin á miklum álagstímum þegar fólk er að koma sér fyrir. Þá er ekki síður mikilvægt að geta hjálpað fólki að komast í tengsl við fólk á hverjum stað fyrir sig og finna íþrótta- og menningarviðburði.“

Krikketleikarinn Hameed Kherkhah, kom sem flóttamaður frá Afganistan með fjölskyldu sinni, á barnsaldri. Hann segir að það hefði getað verið þeim mikil lyftistöng þegar fjölskyldan kom fyrst til Sidney að geta fundið allar upplýsingar um daglegt líf, allt frá því hvar finna megi húsnæði til hvar boðið sé upp á enskukennslu, með því að ýta á einn takka.

„Sú staðreynd að allar upplýsingar má finna á svo auðveldan hátt, mun draga úr álaginu við að setjast að í Ástralíu. Ég vildi óska þess að þetta hefði verið til, þegar við komum til landsins.“