Metnaðarfullu átaki á heimsvísu hefur verið hleypt af stokkunum nú þegar áratugur er til stefnu til að uppfylla Heimsmarkmiðin um Sjálfbæra þróun. Svokölluðum „Aðgerða-áratugi“ (Decade of action) er ætlað að leysa úr læðingi átak til að ná heimsmarkmiðunum með því að virkja alla sem vetlingi geta valdið í þágu betri heims.
Heimsmarkmiðin tóku gildi fyrir fimm árum og þeim á að ná fyrir árið 2030. Nú þegar tíu ár eru til stefnu hefur árangur náðst á mörgum sviðum. Þegar á heildina er litið þarf að hraða aðgerðum og því er átaks þörf.
Réttlátari hnattvæðing
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ýtti Aðgerða-áratugnum formlega úr vör í ræðu til Allshejrarþingsins um forgangsröð samtakanna 2020 í gær. „Aðgerða-áratugurinn miðar að því að tryggja réttlátari hnattvæðingu, efla hagvöxt og koma í veg fyrir átök.“
Með Aðgerða-áratugnum er hvatt til að greiða fyrir sjálfbærum lausnum á helsta vanda heimsins, frá fátækt til jafnréttis og loftslagsmálum til ófjönuðar.
„Á þessum áratugi aðgerða ber okkur að fjárfesta í upprætingu fátæktar, félagslegri vernd, heilsugæslu og baráttu gegn farsóttum, menntun, orku og hreinlæti, sjálfbærum samgöngum og innviðum og aðgangi að netinu,“ sagði Guterres.
Betri stjórnunarhættir
Aðalframkvæmdastjórinn hafði hvatt til þess í september á síðasta ári að allir geirar samfélagsins legðust á eitt næsta áratuginn á þrennum vettvangi.
Á alheimsvísu er þörf á einbeittari forystu, auknum fjárframlögum og snjallari lausnum í þágu heimsmarkiðanna. Á hverjum stað fyrir sig er þörf á umskiptum í stefnumótun, fjárlögum, stofnunum og regluverki ríkisstjórna, borga og sveitasjórna. Loks þarf að fylkja liði almennings, þar á meðal ungmenna. Einnig er þörf á atbeini fjölmiðla, einkageirans, verakýðsfélags, háskólasamfélags og annara sem hlut eiga að máli. Skapa þarf óstöðvandi hreyfingu til að ýta á eftir nauðsynlegri umskiptum.
„Við verðum að bæta stjórnunarhætti, berjast gegn ólöglegu fjárstreymi, uppræta spilling og þróa skilvirkt, auðskilið og réttlátt skattakerfi. Við verðum að byggja upp efnahagslíf fyrir framtíðina og tryggja öllum sómasamleg störf, sérstaklega ungu fólki. Og við verðum að einbeita okkur sérstaklega að konum og stúlkum því það er okkur öllum í hag,” sagði Guterres í ræðu sinni í gær á Allsherjarþinginu.