Áratugur hafrannsókna

0
981
Dan Stark, Unsplash

Höfin og lífið í sjónum eiga sífellt meir undir högg að sæja vegna ágengni mannsins. Rannsóknir á hafinu skipta sköpum um skilning okkar á hafinu og liggja til grundvallar viðnámi gegn loftslagsbreytingum og Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað áratuginn 2021-2030 Hafrannsóknum í þágu sjálfbærrar þróunar. Markmiðið er að vekja til vitundar, efla rannsóknir og vernd hafsins.

Áratugur hafsins er einstakt tækifæri fyrir þjóðir heims til að vinna sman að því að styðja alþjóðlegar hafrannsóknir í þágu sjálfbærrar þróunar úthafanna sem allt mannkyn deilir.

Heilbrigði hafanna 

Í fjórtánda lið Heimsmarkmiðanna – Líf í vatni – er mörkuð sú stefna að  vernda beri og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun. Það tengist sjálfbærum hagvexti, upprætingu fátæktar, fæðu-öryggi og sjálfbæru lífsviðurværi.


Sjónum stafar meðal annars ógn af loftslagsbreytingum, mengun sjávar, ósjálfbærri nýtingu auðlinda sjávar og breytingum og eyðileggingu landslags og umhverfis stranda og sjávar. Rýrnun og eyðilegging vistkerfa stranda og sjávar hafa skaðað lífsgæði fólks um víða veröld.

Höfin okkar hafa margvísleg áhrif á líf okkar. Sjórinn drekkur í sig 90% af hita sem lokast inni vegna áhrifa losunar gróðurhúsalofttegunda. Hann verður fyrir barðinu á loftslagsbreytingum af miklum þunga. Hafið virkar líka sem flutningskerfi og hitastillir jarðar og er hreyfiafl veðurfars og loftslags.

Að efla hafrannsóknir 

Mynd: WMO

Heilbrigði og fjölbreytni lífríkis sjávar er þýðingarmikð því mannkynið reiðir sig á margan hátt á hafið og þær vörur og þjónustu sem þangað má sækja.

Allir jarðarbúar deila hafinu enda styður það líf á jörðinni. Engu að síður er það að miklu leyti ókannað. Hafið liggur til grundvallar nærri öllum Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun og því skiptir þekking á því sköpum um framgang þeirra.

Þrátt fyrir mikilvægi hafsins eru hafrannsóknir van-fjármagnaðar. Þá er kunnátta, fjármagn og hæfni misskipt á milli heimshluta ð því er fram kemur í Alheims hafrannsóknaskýrslu UNESCO.   82% allrar útgáfu um vísindi hafsins mátti rekja til aðeins 45 ríkja á árabilinu 2010-2018. Norðurlönd státa af einhverju hæsta hlutfalli vísindamanna á þessu sviði miðað við höfðatölu. Þar að auki liggja upplýsingar um hafið ekki alltaf á lausu. Gegnsæi er mikilvægt í vísindum til þess að hægt sé að bregðast við vanda.

Ekki er síður mikilvægt að efla alþjóðlega samvinnu enda er það eitt helsta markmið áratugar hafsins. Markmiðið er að greiða fyrir tengslum á milli vísindarannsókna og nýsköpunar í vísindum hafsins annars vegar og þarfa samfélagsins hins vegar. Þannig getur Áratugur hafsins virkað sem sameiginlegur rammi til að tryggja að haffræði styðji ríki við að framfylgja Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun.

Áratugurinn framundan

Matt Hardy, Unsplash

Mikilvægt er að áratugur hafsins, hvort heldur sem er aðgerðir eða niðurstöður hans, feli í sér annað og meira en kyrrstöðu. Brýn þörf er á byltingu í vísindum sjávar.

Áratug sjávar ber að vera aflvaki breytinga og efla og greiða fyrir vísindum hafsins. Það ber að gera á djarfan og framsýnan hátt með samstarfi fræðigreina og nýtingu staðbundinnar þekkingar, sérstaklega frumbyggja. Þá ber að hafa kynslóða-, kynbundna-, og landfræðilega þætti í huga í öllum aðgerðum.

Rétt er að nota niðurstöður síðustu skýrslu um stöðu vísinda hafsins til grundvallar til að meta árangur. Enn er síðan eftir að meta áhrif COVID-19 faraldursins á hafið.