Áratugur vistheimtar: Að hjálpa náttúrunni að hjálpa sér sjálfri

0
853

Vistkerfi eru grundvöllur alls lífs á jörðinni. Því heilbrigðari sem vistkerfin eru, því heilbrigðari er plánetan jörð og íbúarnir. Sameinuðu þjóðirnar hafa hleypt af stokkunum tíu ára átaki sem nefnist Áratugur Sameinuðu þjóðanna um vistheimt.

Síðastliðið sumar útskýrðu Ása L. Aradóttir prófessor við Landbúnaðarháskólann og Kristín Svavarsdóttir plöntuvistfræðingur hjá Landgræðslunni, í upplýsandi samtali hvað felst í áratugi vistheimtar á opnum fundi í Norræna húsinu.

Dugar ekki að vernda það sem eftir er

Fyrsta spurningin sem þær svöruðu var einfaldlega: „Hvers vegna þurfum við vistheimt?“

„Vistkerfi jarðar eru undirstaða allrar okkar tilveru – hvort sem það eru fæða, vatn, trefjar eða sú andlega næring sem náttúran veitir okkur,“ sagði Ása. „Maðurinn hefur hins vegar gengið svo á þessi gæði að það dugar ekki lengur bara að vernda það sem er eftir, við þurfum að tryggja okkur og framtíðarkynslóðum áframhaldandi aðgang að gjöfulum vistkerfum í góðu ástandi. Leiðin til þess er að endurheimta skemmd vistkerfi – VISTHEIMT.
En vistheimt er ferli sem stuðlar að endurreisn vistkerfa er hafa skemmst eða eyðilagst.“


Krísitín tók upp þráðinn og benti á að þetta ferli snúist í raun um að „hjálpa náttúrunni að hjálpa sér sjálfri”.

„Það má segja að vistheimtaraðgerðir stuðli að bata vistkerfa á svipaðan hátt og læknisaðgerðir stuðla að bata sjúklinga. En á endanum eru það ferlar innan vistkerfisins sem leiða til batans og hann getur tekið langan tíma, alveg eins og það tekur okkur tíma að gróa eftir beinbrot eða uppskurð.”

Allt frá því að moka ofan í skurði

Óneitanlega er vistheimt æði fjölbreytt en Kristín og Ása útskýrðu til hvaða aðgerða má grípa með nokkrum dæmum:

  • Að moka ofan í skurði til að endurheimta votlendi og þar með draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og endurheimta búsvæði fyrir fjölbreyttar lífverur.
  • Að kynna aftur til sögunnar tegundir sem hafa horfið af ákveðnum svæðum og skapa skilyrði fyrir þær að breiðast út
  • Að byggja sandvarnargarða og sá melgresi til að stöðva sandfok. Þegar búið er að hemja sandinn skapast skilyrði fyrir ferli í átt að fjölbreyttu mólendi,kjarrlendi – eða jafnvel votlendi
  • Að draga eins og kostur er úr umhverfisáhrifum mannvirkjagerðar og annarra umsvifa okkar mannanna, til dæmis með því að græða upp aflagða vegslóða og endurheimta staðargróður í vegfláum og námum
  • Að styrkja eða endurheimta náttúruleg búsvæði í þéttbýli, til dæmis endurheimt Vatnsmýrarinnar.

Hjálpar sér sjálf

„Vistheimt snýst ekki um að „búa“ til vistkerfi heldur að hjálpa náttúrunni að hjálpa sér sjálfri,” ítrekaði Ása.

Kristín benti á að þótt vistheimtaraðgerðir byggi á vísindalegri þekkingu, séu margar þeirra á flestra færi.

„Vistheimt getur nefnilega verið lykilþáttur í að snúa við eyðingu og hnignun vistkerfa og stuðlað þannig að vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni ásamt því að vinna gegn loftslagsbreytingum með bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri. “

Sjá nánar um Áratug vistheimtar hjá Sameinuðu þjóðunum hér og hér.