Ástaróður til vakandi veraldar

0
432
Vakandi verold

Vakandi verold

14. október 2014. Nú er kominn tími til að vakna! Með þetta vígorð að vopni hafa Margrét Marteinsdóttir og Rakel Garðarsdóttir kvatt sér hljóðs á íslenskum bókamarkaði.

Bók þeirra Vakandi veröld er nú komin út hjá forlaginu Sölku. Undirtitill bókarinnar er Ástaróður og er það nafn með rentu því Vakandi veröld er sögð bók fyrir alla sem bera velferð sína og umhverfisins fyrir brjósti og minnir okkur á að vera ábyrg.

Það þarf ekki að koma á óvart að bókin fjallar um matarnýtingu, enda Rakel forsprakki Vakandi, átaksins gegn sóun matvæla, en það er komið víðar við því einnig er fjallað um hreinsiefni, snyrtivörur, plast, fatnað og margt fleira. Það er nefnilega ekki bara mat sem er sóað og höfundarnir líta á stóra samhengið.

„Við erum föst í viðjum stjórnlausrar neyslu og sóunar – sem hefur slæm áhrif bæði á heilsu og fjárhag,“ segja Margrét og Rakel.  „Við vitum þetta allt, við lesum um það, heyrum og sjáum … en stundum tekur tíma að tileinka sér nýjar venjur.“

Höfundarnir hvetja okkur til bættrar umgengni við náttúruna . „Nú er kominn tími til að vakna. Það eru litlu breytingarnar sem skipta máli – og jörðin mun þakka okkur margfalt fyrir.“

Margrét Marteinsdóttir er þekkt fyrir störf sín í útvarpi og sjónvarpi en hefur nýlega tekið við stjórn Kaffihúss Vesturbæjar. Rakel Garðarsdóttir, framleiðandi,  er einn af forkólfum Vesturports og kemur bæði nálægt kvikmyndagerð og leikhúsi en auk þess er hún stofnandi og talsmaður Vakandi.