Atvinnuleysi jókst 2012

0
446

ILO

17. janúar 2013 – Atvinnuleysi í heiminum jókst árið 2012, ekki síst á meðal ungs fólks segir í nýrri skýrslu frá Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO).
Efnahagslegt óöryggi og ófullnægjandi stefnumótun hindra nýráðningar starfsfólks að mati höfunda árlegrar skýrslu ILO. Ungt fólk verður verst úti. Atvinnulausum hafði fækkað í tvö ár en árið 2012 var bakslag og atvinnulausum fjölgaði um 4.2 milljónir og óttast er að enn fjölgi þeim árið 2013. “Óvissa í efnahagsmálum og skortur á stefnumótun til að bregðast við ástandinu, hafa dregið úr almennu framboði á vinnu, og draga úr fjárfestingum og ráðningum,” sagði Guy Ryder, forstjóri ILO þegar hann kynnti skýrsluna.
Þar er sértaklega beint kastljósi að atvinnuleysi ungs fólks en 197 milljónir ungmenna eru í hópi atvinnulausra í heiminum. 35% atvinnulausra ungmenna í heiminum hafa verið án vinnu í sex mánuði eða lengur en slík fjarvera frá vinnumarkaðnum er talin geta haft alvarleg langtímaáhrif á möguleika til að öðlast félagslega færni og reynslu og þar með lengt atvinnuleysið. 12.4% ungmenna á aldrinum 15 til 24 eru atvinnulaus.

Mynd: Guy Ryder, forstjóri ILO. ILO.