Aukin starfsemi Sameinuðu þjóðanna í Írak

0
424

28. apríl 2008 – Sameinuðu þjóðirnar láta í sívaxandi mæli til sín taka í Írak. 
Sameinuðu þjóðirnar hafa aukið starfslið sitt umtalsvert í Írak og láta til sína taka á fleiri sviðum en áður.  B. Lynn Pascoe, aðstoðar-framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á pólitísku sviði greindi Öryggisráðinu frá ferð sinni til Íraks og sagði það skyldu alþjóðasamfélagsins að aðstoða við að skjóta nýjum stoðum undir íraskt samfélag. Hann sagðist sannfærður um að “Sameinuðu þjóðirnar eru að gera sig gildandi í sívaxandi mæli í Írak”. 

 Sænski stjórnarerindrekinn Staffan de Mistura, er sérstakur fulltrúi framkvæmdastjórans (SRSG) í Írak.
Sameinuðu þjóðirnar hafa opnað á ný skrifstofur í Basra og aukið starfsemi sína í Najaf, Ramadi og Kirkuk. Starfslið SÞ var flutt frá Írak 2004 eftir að 22 starfsmenn létust í sprengjutilræði í Bagdad, þar á meðal sérstakur fulltrúi framkvæmdastjórans Sergio Vieira de Mello.  
Arftaki hans, sænsk-ítalski diplómatinn Staffan de Mistura, var í Brussel á dögunum til viðræðna við Evrópusambandið og NATO. Hvatti hann NATO til að efla þjálfun íraskra lögreglumanna en ESB fjármagnar að miklu leyti starf SÞ í Írak.
Helstu verkefni SÞ í Írak eru að aðstoða við skipulagningu sveitastjórnarkosninga í október.
De Mistura segir að árið 2008 geti skipt sköpum um framtíð Íraks. Vegna kosninga í Bandaríkjunum auk Íraks, og viðræðna um framtíðartengsl landanna tveggja. Þá er nú leitað lausna á deilum um yfirráð helstu þjóðarbrota yfir nokkrum svæðum og skiptir þar Kirkuk mestu máli. Kirkuk var áður að mestu byggt Kúrdum en stjórn Saddams Hússeins, flutti marga brott nauðungarflutningum og lét Sunni Araba setjast þar að.
De Mistura segist fagna því að hætt hafi verið við almenna atkvæðagreiðslu um hvort borgin skyldi sameinast Kúrda-héruðum. “Það hefði getað leitt til borgararastyrjaldar.” Kirkuk er olíuauðug og talið er að Tyrkjum sé ekkert um það gefið ef Kúrdar fái yfirráð yfir henni.
De Mistura segir að Sameinuðu þjóðirnar muni í næsta mánuði opinbera tillögur um framtíðarskipan mála á fjórum svæðum sem þjóðarbrot deila um. Tillögurnar geti síðan orðið fyrirmynd þegar framtíð Kirkuk verði ákveðin. Hann segir að finna verði pólitíska lausn áður en lagt verði í atkvæðagreiðslu um framtíð borgarinnar.