Ávarp á aljóðlegum degi frelsis fjölmiðla 3. maí 2011

0
464
alt

Ávarp framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegum degi frelsis fjölmiðla 3. maí 2011:

altÞegar ríkisstjórnir kúga þegna sína og reyna að komast hjá því að þurfa að standa reikningskil gerða sinna; er frelsi fjölmiðla öflugasta tækið til þess að koma upp um misgjörðir og viðhalda trausti almennings.

Þegar fólk sætir misnunun og útilokun, getur aðgangur að fjölmiðlum ráðið úrslitum um hvort rödd þess heyrist og að það verði til sameiginleg vitund um hlutskipti þess.

Og á tímum hnattrænna áskorana, getur frjálst flæði upplýsinga og hugmynda á vettvangi fjölmiðla stuðlað að því að tengja saman fólk og ríki innbyrðis í tengslaneti sameiginlegs málstaðar. 

Alþjóðlegur dagur fjölmiðlafrelsis á rætur að rekja til afrískra blaðamanna sem sigldu í kjölfarið eftir fall Berlínarmúrsins og hruns hindrana á starf fjölmiðla í Austur-Evrópu og vildu sams konar frelsi í sinni heimsálfu. Þeir tóku höndum saman við UNESCO og skipulögðu árið 1991 málþing í Namibíu sem skilaði Windhoek yfirlýsingunni um frjálsa og sjálfstæða fjölmðla. Hún markaði tímamót og var kveikjan að því að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað tveimur árum síðan að helga alþjóðlegan dag þessu málefni.

Í dag eru það þjóðir Norður-Afríku og Miðausturlanda sem fylkja liði og krefjast lýðræðislegra réttinda og frelsis og treysta með skapandi hætti á internetið og samskiptamiðla til að ýta undir breytingar í samfélögum sínum.

Þema dagsins í ár: “Ný landamæri, nýjar hindranir”, dregur dám af djúpstæðum breytingum á fjölmiðla-umhverfi heimsins. Nýir miðlar og tækni hafa ekki aðeins gagnast einstaklingum heldur auðveldað fréttaöflun og lýst upp skúmaskot  í starfi ríkisstjórna og fyrirtækja.

En sá böggull fylgir skammrifi að gömul vandamál hafa skotið upp kollinum á ný svo sem notkun fjölmiðla til að dreifa hatursáróðri og hvatningum til ofbeldisverka. Einnig hafa ríki sett upp nýjar hindranir svo sem netlögreglu, stafrænar truflanir og ritskoðun á netinu. Að minnsta kosti sex blaðamenn sem vinna aðallega á netinu voru drepnir árið 2010, að sögn Varnarnefndar blaðamanna (Committee to Protect Journalists). Og árið 2008 voru í fyrsta skipti fleiri “netblaðamenn” í fangelsi en þeir sem unnu fyrir hefðbundna fjölmiðla.

Á alþjóðlegum degi fjölmiðlafrelsis skulum við minnast blaðamanna, ritstjóra og annara fagmanna sem drepnir hafa verið vegna starfa sinna við fjölmiðla. Og við skulum heiðra minningu þeirra með því að berjast fyrir réttlæti. Refsileysi sem gerendurnir oft njóta, bendir til ótrúlega lítillar opinberrar áherslu á að vernda blaðamenn og fyrirlitningu á því mikilvæga hlutverki sem þeir gegna. Margir blaðamenn sitja í fangelsi fyrir það eitt að gegna starfi sínu.

Við minnumst á þessum degi 20 ára afmælis Windhoek yfirlýsingarinnar og skulum heita því að brúa hina stafrænu gjá með það fyrir augum að fólk um víða veröld geti notið aðgangs að og nýtingar nýrra fjölmiðla og samskiptatækni.

Í nítjándu grein Mannréttindayfirlýsingarinnar er tryggður réttur fólks til að “leita, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra.” Við skulum ítreka þessa skuldbindingu okkar við þennan hornstein lýðræðis, þróunar og friðar.

Ban Ki-moon