Ávarp á alþjóðaheilbrigðisdaginn

0
478

Stundum er talað um loftslagsbreytingar eins og þær herjI einungis á jörðina en ekki á jarðarbúa. Alþjóðaheilbrigðisdagurinn er að þessu sinni kjörið tækifæri til að víkka út þessa hugsun með því að benda á meiri háttar heilbrigðisvanda sem við stöndum frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga.


Framboð og gæði matar og vatns sem ráða næringu okkar og heilbrigði minnka vegna loftslagsbreytinga. Þær valda ofsafengnum stormum, hitabylgjum, þurrkum og flóðum auk þess sem gæði loftsins sem við öndum að okkur minnka. Afleiðingarnar eru þær að mannlegar þjáningar aukast vegna slysa, sjúkdóma, vannæringar og manntjóns.  

Við þurfum að vekja athygli á þessum veruleika sem oft vill gleymast og tryggja að heilbrigðismál verði í brennidepli í umræðum um loftslagsbreytingar. 
 
Afleiðingarnar verða alvarlegastar í fátækum ríkjum sem eiga minnsta sök á þessum hnattræna vanda. Árið 2020 munu fjórðungur úr milljarði Afríkubúa glíma við vatnsskort og búist er við að uppskera í sumum Afríkuríkjum muni minnka um helming.  

Vannæring og aukin útbreiðsla smitsjúkdóma í tengslum við loftslagsbreytingar munu koma harðast niður á þeim sem síst skyldi: litlum börnum, öldruðum og sjúkum. Konur sem  búa við fátækt eru í sérstakri hættu þegar náttúruhamfarir og önnur vá sem tengist hlýnun jarðar ber að garði. 

Við getum ekki látið okkur nægja að tala um þessar breytingar. Við verðum að grípa til aðgerða til að tryggja að heilbrigði þeirra sem standa höllustum fæti sé tryggt á meðan loftslag breytist. Þetta þýðir að það verður að efla baráttuna til að ná Þúsaldarmarkmiðunum um þróun sem ná frá minnkun ungbarnadauða til valdeflingar kvenna. Þau verða að vera miðlægur þáttur í alþjóðlegum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. 
   
Í opinberri heilsugæslu er áratuga reynsla í því að glíma á skilvirkan hátt við þann vanda sem loftslagsbreytingar munu auka og við getum byggt á þeim grunni til þess að sjá fyrir og hindra afleiðingarnar. 

 Loftslagsbreytingar eru raunverulegar, þær eru að aukast og þær ógna okkur öllum. Við verðum að mæta þeim með aðgerðum til að draga úr þeim, ná Þúsaldarmarkmiðunum um þróun og hvetja einstaklinga til aðgerða. Ef við öll leggjumst á eitt getum við stuðlað að félagslegri- og efnhagslegri þróunar fátækasta fólks heims og bætt heilsugæslu þeirra og líf.

Alþjóðaheilbrigðisdagurinn er áskorun til okkar allra um að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í nafni jarðarinnar og allra jarðarbúa.   

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna