ÁVARP FRAMKVÆMDASTJÓRA SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA Á ALÞJÓÐLEGA FRIÐARDAGINN

0
538

New York, 21. september 2006

Kæru vinir.

Sum okkar upplifum frið á hverjum degi. Göturnar eru öruggar, börnin fara í skóla. Friður er dýrmæt gjöf sem fæstir taka eftir þegar inniviðir samfélagsins eru sterkir.

En því miður eru þessar gjafir fjarlægur draumur fyrir alltof marga í heiminum í dag. Þeir eru hnepptir í fjötra andrúmsloft óöryggis og ótta. Það er fyrst og fremst í þeirra þágu sem þessi dagur er til.

Fyrir tuttugu og fimm árum lýsti Allsherjarþingið þennan dag, Alþjóðlega friðardaginn í þeirri von að menn slíðuðu sverðin og forðuðust ofbeldi daglangt. Sameinuðu þjóðirnar hafa minnst þessa dags síðan. Markmiðið er að fá fóllk til að ekki aðeins hugsa um frið heldur gera eitthvað í málinu. 

Samt sem áður er saklaust fólk fórnarlömb ofbeldis á þessum degi rétt eins og hinum 364 dögum ársins. Og á síðustu vikum hafa hörmuleg átök stigmagnast víða um heim. 

Sameinuðu þjóðirnar vinna að friði á margan hátt. Við leggjum okkur fram af alefli við að hindra frekari blóðúthellingar. Og við getum státað af nokkrum árangri. 

Ríki gefa meiri gaum en áður að því að beita fyrirbyggjandi diplómatískum aðferðum. Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna og viðleitni okkar til að styrkja lýðræði og efla mannréttindi skila árangri. Og einstaklingar um allan heim, konur og karlar, í hverju samfélagi, vinna ötullega að því að draga úr þjáningum og brúa bilið á milli ólíkra trúarbragða og menninga.

Raunar eru færri stríð í heiminum nú en á fyrri áratugum. En þau eru samt of mörg. Hvert fórnarlamb styrjalda er til marks um að okkur hafi mistekist og minnir á okkur hve mikið óunnið er. 

Í þeim anda hvet ég fólk hvarvetna til að virða einnar mínútu þögn í dag í nafni friðar. Við skulum minnast fórnarlamba styrjalda. Og heitum því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að leggja okkar lóð á vogarskálar varanlegs friðar.