Ávarp framkvæmdastjórans á Alþjóðlegum degi læsis

0
534

8. september 2007
Þema alþjóðlegs dags læsis á þessu ári  – heilbrigði og læsi- beinir kastljósinu að því hve lestrarkunnáta er þung á metunum í því að bæta heilbrigðis umhverfi um gjörvallan heim. 

Það eru mörg mikilvæg tengsl á milli læsis og heilbrigðis. Lestrarkunnátta er mikilvæg forsenda kvenna og karla til að geta öðlast hæfni og sjálfstraust til að bæta heilsuna. Líkurnar á því að börn alist upp á heilsusaman hátt og hljóti menntun aukast ef þau eru alin upp af læsri móður. Með þessu móti stuðlar lestrarkunnátta að því að bæta, ekki aðeins heilsu einstaklingsins, heldur einnig fjölskyldunnar og alls samfélagsins.
Það er hægt að efla samtímis heilsugæslu og menntunartækifæri. Til dæmis hafa barnalækningar reynst ákjósanlegur vettvangur til að veita leiðsögn í lestarlærdómi og til að undirbúa börn fyrir skólagöngu. Lestrarkennsluáætlanir með heilbrigðisívafi geta stuðlað að því að skapa og viðhalda heilbrigðari heimi, rétt eins og frumkvæði í heilsugæslumálum með lestrarvídd geta verið árangursrík.
Á þessu ári er Læsisáratugur Sameinuðu þjóðanna (2003-2012) hálfnaður. Samt er talið að 774 milljónir fullorðinna séu ólæsar, tveir þriðju hlutar þeirra konur. Meir en 72 milljónir barna ganga ekki í skóla. Þessar tölur minna okkur á hve mikið er ógert til að tryggja rétt fólks til menntunar og læsis.   
Á þessu ári er líka hálfnaður sá tími sem gefinn var til að uppfylla Þúsaldarmarkmiðin en þeim á að vera náð fyrir 2015. Eitt af markmiðunum er að öll börn njóti grunnmenntunar og þar er læsi þungt á metunum. Aukið læsi myndi einnig efla viðleitnina til að bæta heilsu mæðra og barna, berjast gegn HIV/Alnæmi, malaríu og öðrum sjúkdómum og uppfylla Þúsaldarmarkmiðin. Þegar öllu er á botninn hvolft stuðlar læsi að varanlegri þróun. Lestrarkunnátta grefur undan örbirgð og fjölgar tækifærum auk þess að efla jafnrétti kynjanna og stuðla að sjálfbæru umhverfi.  
Tröllaukið verkefni blasir við á heimsvísu í að auka læsi. Þetta er áskorun til okkar allra, ríkisstjórna, Sameinuðu þjóða-fjölskyldunnar annara alþjóðasamtaka, einkageirans, borgaralegs samfélags, staðbundinna samtaka og einstaklinga. Hvert okkar getur lagt sitt lóð á vogarskálarnar. Allir geta lagst á eitt til að finna lausn.
Það felst valdefling í því að læra að lesa og er grundvöllur þróunar og heilbrigðis. Við skulum tvíefla viðtleitni okkar til að auka læsi í heiminum á þessum Alþjóðlega degi læsis og taka höndum saman til að ná lokatakmarkinu: að allir fullorðnir jarðarbúar verði læsir.