Bachelet hvetur Trump til að hafna fölskum frásögnum

0
52
Bachelet Trump
UN News/Daniel Johnson

 Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur Trump Bandaríkjaforseta til að hafna „fölskum og hættulegum frásögnum”. Jafnframt bæri að hvetja stuðningsmenn til að gera slíkt hið sama. Michelle Bachelet, yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum  sagði í yfirlýsingu að hún hefði þungar áhyggjur af árásinni á bandaríska þinghúsið á miðvikudag.

Bachelet Trump
Unsplash/Louis Velazquez

Bachelet sagði að atburðarásin, sýndi glögglega hve skaðlegt það væri þegar pólitískir leiðtogar bjöguðu staðreyndir, stanslaust og meðvitað, og hvettu til ofbeldis og ælu á hatri.

„Við hvetjum leiðtoga allra pólitískra fylkinga, þar á meðal Bandaríkjaforseta, til að hafna röngum og hættulegum frásögnum. Þeim ber að hvetja stuðningsmenn sína til að gera slíkt hið sama,“ sagði mannréttindastjórinn.

Árásir á fjölmiðla

Hún harmaði einnig alvarlegar hótanir í garð starfsfólks fjölmiðla og eignaspjöll.

„Við tökum undir kröfur víða að um ítarlega rannsókn á atburðunum á miðvikudag,“ sagði Bachelet.

Áður hafði Stéphane Dujarric talsmaður António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna gefið út yfirlýsingu.  Þar lýsti hann harmi yfir atburðunum. „Við slíkar aðstæður er mikilvægt að pólitískir leiðtogar brýni fyrir stuðningsmönnum sínum að forðast ofbeldi. Jafnframt ber að virða lýðræðisleg ferli og réttarríkið.“