Ban biður Bahrain um að leysa mál dansks borgara

0
448

Bahrain

25. apríl 2012: Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti áhyggjum sínum í gær af ástandinu í Bahrain og bað yfirvöld í Persaflóaríkinu um að leysa mál baráttumanns fyrir mannréttindum.

 Abdulhadi Al-Khawaja, sem er ríkisborgari bæði í Danmörku og Bahrain hefur verið í hungurverkfalli í ellefu vikur. Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi og gefið að sök að hafa brotið lög gegn hryðjuverkarfsemi.
 
“Framkvæmdastjórinn ítrekar enn hvatningar sínar til yfirvalda í Bahrain að leysa mál  Al-Khawaja í samræmi við eðlilega málsmeðferð og mannúðarsjónarmið án frekari tafa,” sagði talsmaður Ban í yfirlýsingu.
Fyrr í þessum mánuði hvatti hópur sérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna til þess að   Al-Khawaja, yrði leystur úr haldin en lokaniðurstöðu áfrýjunardómstóls er nú beðið.
 Ban hvatti einnig yfirvöld í Bahrain til að virða skilyrðislaust grundvallar-mannréttindi íbúa Bahrain, þar á meðal sanngjarna málsmeðferð allra fanga.
Átök hafa verið í Bahrain frá því í febrúar en þá var ár eftir að fyrstu almennu mótmæli brutust út í ríkinu.

Fjórir sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum hafa hvatt Bahrain til að þiggja boð Dana um að Al-Khawaja sem er ríkisborgari í Bahrain og Danmörku, fái að fara til Kaupmannahafnar í læknismeðferð.
 
 “Ég hef þungar áhyggjur af því að réttarhöldin yfir Al-Khawaja og dómurinn í máli hans séu tengd lögmætu starfi hans í þágu mannréttinda í Bahrain,” segir Margaret Sekaggya, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum baráttufólks fyrir mannréttindum. “Þetta mál er því miður dæmigert fyrir hvernig farið er með verjendur mannréttinda í Bahrain.”  
Þrír aðrir Sérstakir erindrekar Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum taka undir þessar kröfur. Þeir eru Maina Kiai, sem sinnir fundafrelsi og réttinum til stofnunar felagasamtaka, Gabriela Knaul, erindreki um sjálfstæði dómara og lögfræðinga og Juan E. Mendez, erindreki um pyntingar.

Mynd: Ban Ki-moon hittir Hamad Bin Issa Al Khalifa, Konung Bahrain í New York, 21. september 2011. SÞ-mynd: Eskender Debebe.